Víkingar þurfa á sigri að halda í kvöld
SA Víkingar og Björninn mætast í eina leik kvöldsins á Íslandsmóti karla í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri og hefst leikurinn kl. 19:30. Liðin mættust í fyrsta leik vetrarins og þá höfðu Bjarnarmenn betur 4-3. Víkingar hafa byrjað titilvörnina illa og hafa aðeins þrjú stig eftir þrjá leiki en Björninn hefur níu stig eftir jafnmarga leiki.
Með sigri í kvöld ná Bjarnarmenn níu stiga forystu á norðanmenn og myndu jafna SR að stigum á toppnum. Leikurinn í kvöld er því mikilvægur fyrir Víkinga sem þurfa helst þrjú stig til þess að dragast ekki aftur úr.
Það er skarð fyrir skildi að Rúnar Freyr Rúnarsson verður frá í liði Víkinga vegna meiðsla en norðanmenn geta glaðst yfir því að Stefán Hrafnsson mun reima á sig skautana á ný eftir að hafa verið frá fyrstu leikina. Þá munu bræðurnir í liði Bjarnarins, Birkir og Sigurður Óli Árnasynir, mæta á sinn gamla heimavöll en það er óvíst hvort þjálfari Bjarnarins, Sergei Zak, geti leikið með liðinu vegna meiðsla.