Vigdís vígir Ljóðasetur Íslands á Siglufirði
Á Ljóðasetri Íslands eru hátt á annað þúsund íslenskar ljóðabækur, gamlar og nýjar. Flestar hafa þær verið gefnar og verður getið um gefendur við vígsluna, meðal annars eina stórgjöf. Gestir setursins geta fengið að lesa bækurnar í hlýlegu umhverfi og fengið sér kaffi eða te í leiðinni. Á veggspjöldum er rakin þróun íslenskrar ljóðlistar og sýndir eru gripir sem tengjast sögunni. Á hverjum degi verður boðið upp á ýmsa viðburði svo sem ljóðalestur, fyrirlestra og flutning á tónlist sem tengist ljóðum.
Ljóðasetrið á Siglufirði er að Túngötu 5. Það verður opið alla daga í sumar frá kl. 14 til kl. 18. Þar er hægt að fá keyptar ljóðabækur og eru sumar þeirra fágætar. Forstöðumaður safnsins er Þórarinn Hannesson.