Vífilfell á Akureyri framleiðir bjór til útflutnings
Bjórsala er minni í ár en var á síðasta ári. Samdráttur í sölu á bjór hjá Vínbúðunum er 5,17% á fyrstu sjö mánuðum þessa árs samanborið fyrir sama tímabil í fyrra. Unnsteinn segir að þar sem bjór sé um 90% af framleiðslu fyrirtækisins sé ljóst að minni sala komi niður á því. Hann segir að samdráttur í sölu á framleiðsluvörum Vífilfells sé aðeins minni en heildarsamdráttur í sölu í vínbúðunum. „Og það er gaman að geta þess að okkar stærsta vörumerki, Víking Gylltur, er í sókn, sala í honum hefur aukist um 1,5% á milli ára," segir hann.
Unnsteinn segir að þegar horft er á orsakir þess að sala á bjór hefur minnkað séu þar nokkur atriði sem hafi áhrif. Skattar á bjór hafi hækkað ítrekað síðustu tvö ár og þá hafi gengi krónunnar veikst sem skilar sér inn í verð á hráefnum og umbúðum. „Þá má nefna að kaupmáttur almennings er mjög líklega að minnka, ekki bara að fjöldi fólks hefur misst vinnuna heldur hefur vinna líka dregist saman hjá mörgum. Síðan má leiða að því líkum að veðrið hafi nokkur áhrif og þar má sérstaklega að nefna kulda fyrripart sumars," segir Unnsteinn.