Viðræðum slitið á Akureyri

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur slitu í kvöld viðræðum við L-listann um myndun meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar, RÚV greinir frá.

Eins og áður hefur komið fram hafa flokkarnir þrír verið í formlegum viðræðum frá því á sunnudag.

Haft er eftir Huldu Elmu Eysteinsdóttur, fulltrúa L-listans á RÚV, að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi svikið það samkomulag sem þeir hafi gert við flokkinn og rætt við aðra í staðinn. „Ég held að flokkarnir hafi verið hræddir við að við erum stærri en þeir. Við fengum þrjá bæjarfulltrúa en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur tvo hvor. Ég geri ráð fyrir að þeir myndi meirihluta núna með Miðflokki og Samfylkingu.“ segir Hulda Elma. 

Þá er haft eftir Heimi Erni Árnasyni oddvita Sjálfstæðisflokksins að kröfur L-listans hafi verið allt of miklar og ekki á jafnréttisgrundvelli. Það hafi því verið sameiginleg ákvörðun Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að slíta viðræðunum. Aðspurður um næsta leik í stöðunni sagði Heimir við fréttastofu RÚV að allir væru að tala við alla.


Athugasemdir

Nýjast