Viðburður að tilefni fyrsta vetrardags varð að óvæntri hátíð

Mynd/Minjasafnið á Akureyri
Mynd/Minjasafnið á Akureyri

Það myndaðist óvænt hátíð! Viðburður í tilefni fyrsta vetrardags varð fyrir tilviljun að þriggja daga ljóðaveislu í stofum Davíðshúss þar sem fram koma Sigmundur Ernir, Fríða Ísberg, Tómas Ævar og Þórður Sævar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Minjasafninu á Akureyri.

Öll eiga þau það sameiginlegt að vera með spáný verk. Sigmundur Ernir ríður á vaðið og fjallar um bók sína Eldhús ömmu Rún þar sem hann ferðast á tímavél minninganna til æskuslóða sinna á Akureyri.
Fríða Ísberg les upp úr skáldsögunni Merkingu. Fríða hefur áður gefið frá sér smásagnasafnið Kláða, sem tilnefnt var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020, og ljóðabækurnar Slitförin og Leðurjakkaveður.

Tómas Ævar les úr frumraun sinni, ljóðbókinni umframframleiðsla, sem fylgir leit ljóðmælanda að lausn undan óefni í sálarlífi sínu sem hann ber á borð þriggja kvenna.

Ljóðahátíðinni lýkur með Brunagaddi Þórðar Sævars, sem vonandi er ekki fyrirboði um komandi vetur þó viðburðurinn sé haldinn fyrsta vetrardag. Í ljóðabók sinni fjallar Þórður einmitt um fyrsta vetur sinn á Akureyri í 22 ár.

Hver veit nema hér sé komin til að vera ljóðahátíð sem gæti vaxið næstu árin út fyrir stofur Davíðshúss?

21. október - Sigmundur Ernir kl. 20

22. október - Fríða Ísberg og Tómas Ævar kl. 20

23. október - Þórður Sævar kl. 15

 Finna má viðburði fyrir hverja skáldastund á facebooksíðu Davíðshúss.


Athugasemdir

Nýjast