Viðbúnaður hjá lögreglu á Bíladögum
„Við verðum með svipaðan viðbúnað og undanfarin ár. Við fjölgum í liðinu miðað við venjulega helgi og setjum upp útihátíðar viðbúnað,“ segir Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Akureyri. Bíladagar eru framundan um helgina, en þessari fyrstu bæjarhátíð sumarins hefur jafnan fylgt fjöldi gesta sem hefur hagað sér misjafnlega vel. Meira eftirlit verður í bænum um helgina og einnig verður fylgst betur með umferð í og við bæinn.
Bílaklúbbur Akureyrar og Akureyrarstofa hafa unnið saman að því að sporna við hávaða og látum í bænum í tengslum við hátíðina og segir Daníel það þarft framtak. „Þetta vindur ofan af mesta ærslaganginum. Við vonum að með nýja æfingasvæðinu fari mestu lætin af götunum, sem er aðalatriðið. Einnig verður núna hægt að halda hefðbundin hátíðarhöld í miðbænum vegna 17. júní. Það er því ýmislegt búið að gera til þess að bæta ásýnd Bíladaga,“ segir Daníel.