Hagkvæmt virðist að koma upp fjarvarmaveitu í Grímsey með því að nota íslenskan trjávið sem orkugjafa auk afgangsvarma frá díselrafstöð eyjarinnar. Nægur efniviður er í norðlenskum skógum og þetta gæti bæði lækkað orkukostnað Grímseyinga og fært þeim þau auknu lífsgæði sem fylgja hitaveitu.
85 milljónir
Í Grímsey eru 30 íbúðarhús og að auki tíu hús með atvinnurekstri. Til að kynda þetta húsnæði er áætlað að þurfi um 500 kílóvatta afl og að auki 100 kílóvött til að hita upp skólann og sundlaugina. Orkuþörfin er metin 1.800-2.000 megavattsstundir á ári. Verkfræðistofa Norðurlands hefur gert úttekt á því hvað uppsetning hitaveitukerfis með viðarkyndistöð í Grímsey myndi kosta. Gert er ráð fyrir hringrásarkerfi þar sem sama vatnið yrði hitað upp aftur og aftur en í hverju húsi yrði varmaskiptir til að hita upp neysluvatn. Stofnkostnaður við slíka hitaveitu í Grímsey er áætlaður um 130 milljónir króna en frá dregst eingreiðsla frá hinu opinbera og heimlagnargjöld þannig að þetta er fjárfesting upp á um 85 milljónir. Í Grímsey er rafmagn framleitt með díselrafstöð og gert er ráð fyrir að svo verði áfram en hitaveitan nýti afgangsvarmann frá stöðinni sem er umtalsverður, um 700 megavattsstundir á ári.
Ítarlega er fjallað um hugsanlega viðarhitaveitu í prentútgáfu Vikudags