Mærudagar fóru fram á Húsavík um helgina og fór hátíðin vel fram. Þetta árið var kynnt til leiks ný hefð sem eflaust á eftir að festa sig í sessi en það afhending umhverfisverðlauna Norðurþings. Það voru Soffía Gísladóttir, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings og Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri sem veittu viðurkenningarnar við setningu Mærudaga á föstudag.
Snyrtilegasta lóðin 2025 er lóð Rósu Þorsteinsdóttur í Ásgötu 11 á Raufarhöfn. Rósa er fædd 1940, lóðin hennar hefur alltaf verið mjög falleg. Henni hefur tekist að rækta blóm og runna sem aðrir hafa talið að væri ekki hægt að rækta á þessum stað á landinu. Þrátt fyrir að vera að nálgast nírætt slær hún sjálf, hreinsar beð og vinnur í garðinum alla daga sumarsins. Þannig hefur hún síðustu áratugina hlúð að garðinum af alúð og elju og gerir enn. Hún á svo sannarlega skilið að fá viðurkenningu fyrir garðinn sinn sem er mikil bæjarprýði.
Laxamýri er valið snyrtilegasta býlið 2025. Laxamýri er fyrsta býlið sem blasir við vegfarendum þegar komið er inn í sveitarfélagið frá Aðaldalshrauni. Mikill metnaður ábúenda fyrir fallegu umhverfi kristallast í ásýnd býlisins sem telur fjölda húsa, bæði íbúðarhúsa og útihúsa. Öll húsin eru máluð í sömu litum og vel við haldið. Lóðir kringum mannvirki eru vel slegnar á sama tíma sem gefur fallegt heildaryfirbragð á svæðið allt. Sannarlega býli til fyrirmyndar sem ber eigendum sinum gott vitni.
Plokkari ársins 2025 er Jón Grímsson á Kópaskeri, eða Nóni eins og allir þekkja hann. Hann tínir rusl á og í kringum Kópasker alla daga ársins. Nóni hefur plokkað alla tíð og löngu áður en orðið plokk var fundið upp. Nóni þarf ekki hvatningu á fyrir fram gefnum plokkdögum, heldur er plokkið honum eðlislægt. Það sést á þorpinu ef hann er ekki heima.
Snyrtilegasta lóð fyrirtækis 2025 er hjá Garðræktarfélagi Reykhverfinga hf. Fyrirtækið er með starfsemi á Hveravöllum í Reykjahverfi en þar reka hjónin Páll Ólafsson og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir stóra garðyrkjustöð. Þau reka líka Heiðarbæ, tjaldstæði, veitingastað og sundlaug af miklum myndarskap með dyggri aðstoð barna sinna. Bæði á Hveravöllum og Heiðarbæ er mjög snyrtilegt, öllu vel við haldið og aðstaða til fyrirmyndar. Lóðirnar eru vel hirtar og þrátt fyrir mikil umsvif fyrirtækisins er öll umgjörð kringum starfsemina hreinleg, metnaðarfull og til fyrirmyndar.