Víða hálka, hálkublettir og skafrenningur

Víða er leiðindafærð á vegum landsins, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Á Norðurlandi vestra eru víða hálkublettir, hálka og skafrenningur er á Vatnsskarði, snjóþekja og skafrenningur er á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði. Hálkublettir eru á flestum fjallvegum á Norðausturlandi en vegir á láglendi eru yfirleitt greiðfærir. Hálka og éljagangur er á Víkurskarði og hálkublettir og skafrenningur á Hófaskarði og Hálsum. Á Austurlandi eru flestir vegir greiðfærðir. Hálka er þó á Vatnsskarði eystra, hálkublettir á Breiðdalsheiði og Öxi en snjóþekja með ströndinni. Snjóþekja er á Suðausturlandi. Hálka, snjóþekja og éljagangur er á flestum leiðum á Vesturlandi. Snjóþekja og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og snjóþekja á Bröttubrekku Á Laxárdalsheiði er þæfingsfærð og töluverður skafrenningur. Hálka er á Fróðárheiði og Vatnaleið.
Það er víðast hvar snjóþekja, éljagangur og skafrenningur á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Þungfært er á Klettshálsi en unnið að mokstri. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka, snjóþekja og éljagangur eru á Suðurlandi. Hálka og éljagangur er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.

Nýjast