"Við verðum að fara snúa við blaðinu"

Akureyri og Valur mætast í Höllinni á Akureyri í kvöld kl. 19:00 í 5. umferð N1-deildar karla í handbolta. Akureyri hefur tapað þremur leikjum í röð, nú síðast gegn Haukum á útivelli með einu marki, og má illa við tapi í kvöld en norðanmenn hafa tvö stig eftir fjóra leiki í sjötta sæti deildarinnar. Valur hefur þrjú stig sæti ofar en gengi þeirra þessa fyrstu deildarleiki hefur verið upp og ofan. Liðið saknar þess sárlega að Valdimar Fannar Þórsson geti beitt sér almennilega í sóknarleiknum vegna bakmeiðsla og þar af leiðandi hefur sóknarleikur Hlíðarendapilta verið brösóttur. Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar segir það skyldu að ná í stig í kvöld.

„Það er ekkert flóknara en það að við verðum einfaldlega að vinna í kvöld og staðan er þannig að það er óásættanlegt að tapa þremur leikjum í röð. Við verðum að snúa við blaðinu,“ segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar við Vikudag um leikinn í kvöld.

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals segir sína menn klára í slaginn. „Það er alltaf gaman að koma norður og þetta verður erfitt en skemmtilegt. Við höfum verið kaflaskiptir í okkar leik og ég hefði viljað hafa fleiri stig. Við þurfum á stigum að halda í kvöld og þó að muni mikið um reynsluboltana hjá Akureyri að þá er þetta hörkulið. Þeir eru bara góðir og með einn besta markmann deildarinnar. Þetta verður krefjandi,“ segir Óskar Bjarni.

Nánar er hitað upp fyrir leikinn og fjallað um N1-deildina í Vikudegi sem kemur út í dag.

Nýjast