„Við þurfum að fara að koma okkur á bragðið“

Bjarni Fritzson leikmaður Akureyrar á flugi gegn Val á dögunum.
Bjarni Fritzson leikmaður Akureyrar á flugi gegn Val á dögunum.

Þegar fimm umferðir eru liðnar af N1-deild karla er staða Akureyrarliðsins töluvert frá því að vera góð. Liðið hefur aðeins þrjú stig í sjötta sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fjórða sætinu sem er síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í vor. Norðanmenn fengu langþráð stig í jafnteflisleiknum gegn Val á heimavelli í síðustu umferð, sem fór 24-24, og var það fyrsta stig Akureyrar síðan í fyrstu umferð í sigurleiknum gegn Aftureldingu. Þó skammt sé liðið á mótið er ljóst að Akureyri verður að fara að ná sigri til þess að missa ekki af lestinni.

Framundan er afar erfiður útileikur gegn liði HK í Digranesi á sunnudaginn kemur. HK-liðið sýndi í síðustu umferð að þeir eru með eitt besta handboltalið landsins er þeir skelltu toppliði Fram í Safamýrinni nokkuð sannfærandi og urðu þar með fyrsta liðið til að leggja Fram að velli á leiktíðinni. HK fór með sigrinum upp í fjórða sæti deildarinnar með sjö stig. Það verður því við ramman reip að draga fyrir norðanmenn sem verða án Odds Gretarssonar hornamanns, en hann verður í banni eftir að hafa fengið beint rautt spjald í síðasta leik.

„Það er ekki spurning að við verðum að fara negla sigur og þétta okkur betur saman. Þetta hefur ekki verið að falla alveg með okkur þótt liðið hafi verið að spila ágætlega á köflum og við verðum að fara vinna meira í þessari stigasöfnun. Við þurfum að komast á bragðið og þá koma fleiri sigrar,“ segir varnarjaxlinn Guðlaugur Arnarsson leikmaður Akureyrar, sem jafnframt hefur verið fyrirliði liðsins í fjarveru Heimis Arnar Árnasonar.

Nánar er rætt við Guðlaug og hitað upp fyrir leik Akureyrar og HK í Vikudegi sem kom út í gær.

Nýjast