„Við sníðum stakk eftir vexti, það er ekkert mál“

Rauðakrossbúðin hefur verið til húsa í Stöðinni við Vallholtsveg 3 en þar að flytja 1. apríl nk.
Rauðakrossbúðin hefur verið til húsa í Stöðinni við Vallholtsveg 3 en þar að flytja 1. apríl nk.

Þriðjudags seinnipart í lok apríl árið 2017 urðu tímamót á Húsavík þegar Rauði krossinn í Þingeyjarsýslum opnaði fatabúð í fyrsta sinn. Verslunin var opnuð að Garðarsbraut 44 eða Hlyn, þar sem félagsaðstaða Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni var til húsa, og er vissulega enn í dag.

Guðrún

 

Verslunin féll strax í kramið meðal Húsvíkinga en þar hefur verið hægt að fá notuð föt og ýmsan smávarning á einkar góðu verði. Sjálfboðaliðar hafa séð um reksturinn á búðinni sem hefur verið opin að jafnaði tvo seinniparta í viku. Allur ágóði rennur óskiptur til mannúðarmála Rauðakrossins.

Flutningar hófust

Það var þó alltaf vitað að fyrr eða síðar þyrfti Rauðakrossbúðin að flytja sig um set því Félag eldri borgara hafði í hyggju að stækka félagsaðstöðu sína. Þann 23. janúar 2020 opnaði búðin á nýjum stað í hjarta bæjarins að Garðarsbraut 7. Þar var verslunin til húsa í eitt ár en þá fluttist búðin að Vallholtsvegi 3 í húsnæði Orkuveitu Húsvíkur sem í daglegu tali er kallað gamla bifreiðastöðin eða einfaldlega Stöðin. Nú réttu árið síðar er Rauðakrossbúðin enn á hrakhólum með húsnæði því Orkuveitan hefur nú selt húsið og rennur leigusamningu Rauðakrossins út í apríl nk.

Sjálfboðaliðar Rauðakrossins sem staðið hafa vaktina hingað til eru þó ekki af baki dottnir ef marka má orð eins þeirra, Guðrúnar Jónsdóttir sem láð hefur verlsuninni krafta sína frá því hún var til húsa í Hlyn.

Rauðakrossbúðin

Frá opnun Rauða kross búðarinnar í Hlyn árið 2017.

 

Kynlegir kvistir ruddu brautina

„Ég er búin að vera í þessu í allnokkur ár, var náttúrlega fyrst í Kynlegum kvistum sem var til húsa í Naustagili, húsnæði N1,“ segir Guðrún en Kynlegir kvistir höfðu riðið á vaðið með verslun af þessu tagi. Eftir að sú verslun lokaði tók Rauði krossinn til sinna ráða og opnaði sína verslun enda hafði fatasöfnun átt sér stað um all nokkurt skeið á Húsavík.

„Mér finnst svo krúttlegt að vera með svona búð. Allt sem við höfum verið með til sölu annað en föt er bara það sem fæst gefins héðan af Húsavík og þetta væri ekki hægt nema fyrir gjafmildi íbúanna,“ segir Guðrún og bætir við að hún þori ekki annað en að vera bjartsýn um að nýtt húsnæði finnist.  

Aðspurð segir Guðrún að fyrst um sinn hafi allur fatnaður sem til sölu var í búðinni komið frá Reykjavík.  „Svo fóru Akureyringar að tala um að þeir væru að drukkna í fötum. Húsavíkurföt fara suður en við fáum orðið fatnað frá Akureyri,“ segir hún og bætir við að þau séu afskaplega falleg fötin sem koma frá höfuðstað Norðurlands.  

Guðrún segir að yfirleitt sé um mjög fínan fatnað að ræða sem fólk setur í fatasöfnunargáma en stundum þurfi að þvo og sinna smáviðgerðum.

 Þvotturinn fylgir þessu

„Við erum búnar að þvo margar þvottavélar fyrir Rauða krossinn. Við höfum líka verið að laga talsvert af fatnaði en það er oftast ekki meira en að laga saumsprettur eða festa nýja tölu. Annars lítur þetta yfirleitt mjög vel út,“ segir Guðrún létt í bragði .

Ágóði af sölunni rennur sem áður segir í mannúðarstarf RK og munar um minna segir Guðrún sem kveðst ánægð heilt yfir ánægð með söluna í búðinni.

„Lægsta innkoma sem við höfum fengið yfir einn dag er 3500 krónur, það var þegar við vorum suður í Hlyn. Þegar mest er höfum við verið að nálgast 100 þúsund á dag, sérstaklega þegar við höfum fengið fallegar sendingar,“ útskýrir Guðrún.

Kjaftshögg að missa húsnæðið

Guðrún segir jafnframt að það hafi verið mikið kjaftshögg þegar búðin missti húsnæðið að Garðarsbraut 7 og nú sé þau enn í sömu sporum. „Manni finnst nú eins og Rauði krossinn sé eitthvað sem sé kýrheilagt og því leiðinlegt að vera sífellt í þessum hrakningum með húsnæði,“ segir hún en bætir við að hún sé hreinlega að kafna úr bjartsýni fyrir því að málið leysist í tæka tíð.

Verslunin þarf að vera farin úr núverandi húsnæði 1. apríl og vonast hún eftir að vera búin að finna húsnæði fyrir þann tíma, en tekur fram að þetta séu góðgerðarsamtök og því sé ekki gerlegt að borga himinháa leigu.

Það er þó ekki aðeins húsnæði sem er skortur af því Guðrún segir að Rauði krossinn gæti vel bætt við sig sjálfboðaliðum.

 Gefast ekki upp

„Við ætlum okkur að halda ótrauðar áfram en þyrftum líka að fá fleiri sjálfboðaliða. Ég bara trúi því ekki að hér leynist ekki fólk sem er tilbúið til að gefa vinnu sína 1-2 klukkutíma tvisvar í viku,“ segir Guðrún kankvís og bætir við að ýmsar hugmyndir hafi komið fram um nýtt húsnæði

„Það hefur margt fólk komið til tals við okkur eftir að fréttist að við værum að missa húsnæðið. Ýmsum hugmyndum hefur verið gaukað að okkur um laust húsnæði sem gæti komið til greina,“ segir hún og bætir við að það verði skoðað gaumgæfilega.

„Einhverstaðar þurfum við að vera, ef við finnum minna húsnæði þá bara minnkum við aðeins við okkur. Við sníðum stakk eftir vexti, það er ekkert mál. Það má bara ekki gerast að búðin loki fyrir fullt og allt. Ég trúi ekki öðru en að þetta blessist, því fólk vill augljóslega hafa þessa búð í bænum. Fólk er að koma með hluti og fólk er að koma og versla við okkur.“

Guðrún segir að vissulega sé þetta sjálfboðaliðastarf oft á tíðum krefjandi en að sama skapi afar gefandi. „Það er svo óskaplega gaman að standa í þessu og yndislegt að fá þessar gjafir. Þegar fólk kemur með dótið sitt til að gefa og gengur brosandi út. Þetta er alveg dásamlegt,“ segir Guðrún að lokum og vonandi leysast húsnæðismál Rauða kross búðarinnar fyrir fullt og allt innan tíðar.  

 


Athugasemdir

Nýjast