„Við reynum alltaf að vera lausnamiðuð“

Gríðarleg útbreiðsla Covid -19 faraldursins undanfarið hefur ekki farið framhjá Norðlendingum. Smittölur virðast lítið þokast niður á við og reynir því á starfsfólk skóla að skipuleggja starfið frá degi til dags. Kolbrún ada

Í Borgarhólsskóla á Húsavík hafa komið upp smit í þremur bekkjum frá því að skólastarf hófst á ný eftir jólafrí. Í 8. bekk, 5. bekk og nú síðast í 2. bekk í byrjun vikunnar.

„Þetta er þriðji bekkurinn þar sem smit hefur verið staðfest,“ sagði Kolbrún Ada Gunnarsdóttir starfandi skólastjóri þegar Vikublaðið ræddi við hana á þriðjudagog bætir við að í dag [þriðjudag] séu fjórir nemendur í skólanum með staðfest smit.

Aðrir nemendur í 2. bekk hafa þó ekki þurft að fara í sóttkví vegna nýjasta smitsins þar sem það var rakið aftur til sunnudags og umræddur nemandi var ekki í skólanum á mánudag. Aðrir nemendur voru því ekki útsettir fyrir smiti.

Unnið í lausnum

Kolbrún Ada játar því aðspurð að ástandið í samfélaginu hafi vissulega skapað margar áskoranir fyrir kennara og annað starfsfólk skólans.

„Við leitum eftir lausnum og erum með ákveðin plön undirbúin. Svo kemur bara maður í manns stað þegar þess þarf. Á hverjum degi er verið að leysa ný úrlausnarefni. Við höfum sem betur fer lítið þurft að fella niður kennslu nema rétt þennan sólarhring á meðan smitrakning fer fram. Nú er náttúrlega líka töf á smitrakningu þannig að við höfum gripið til þess ráðs þegar kemur upp smit hjá nemanda sem hefur verið í skólanum að biðja foreldra barna í viðkomandi bekk að halda þeim heima þar til við fáum betri upplýsingar. Þannig reynum við að draga úr líkum á frekari smitum. Svo hafa kennarar verið að hlaupa í skarðið og taka stærri hópa og eru með þannig verkefni. Þetta er bara áskorun í starfi og við reynum alltaf að vera lausnamiðuð,“ útskýrir hún.

Þá segir Kolbrún Ada að blessunarlega hafi tekist að halda skólanum opnum það sem af er ári. „Þegar kom upp smit hjá nemendum og starfsfólki fyrir jól þá var tekin ákvörðun af yfirvöldum að loka skólanum en síðan þá hefur okkur tekist að halda honum opnum því þetta hafa verið afmarkaðir hópar sem hafa verið að missa einn skóladag.“

Þrír starfsmenn voru í einangrun vegna smits þegar skólinn hófst eftir áramót og einn í sóttkví með barni. Á þriðjudag var einn starfsmaður í einangrun.

Kolbrún Ada tekur fram að það hjálpi til hvað foreldrar séu jákvæðir og spili með í þessari baráttu. „Þetta er eins og að vera spila leik þar sem sífellt er verið að finna upp nýjar reglur í. Maður finnur muninn frá degi til dags, t.d. hvernig smitrakning hefur þróast, og hver á að vera í sóttkví og hver ekki. En ég er með frábæran lausnamiðaðan starfshóp sem er alltaf tilbúinn til að leggja sig fram og grípa boltana,“ segir hún að lokum.

Fréttin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins


Athugasemdir

Nýjast