"Við höldum okkar striki"
Svo virðist sem versta veðrið sé að færast vestan við okkur þannig að við höldum dagskránni til streitu, segir Hulda Sif Hermannsdóttir skipuleggjandi Akureyrarvöku sem fram fer um helgina. Vegna slæmrar veðurspár á Norðurlandi fyrir föstudag og laugardag hefur starfsfólk Akureyrarstofu fundað stíft síðasta sólarhringinn til að bregðast við. Til greina kom að seinka dagskránni um einn dag en ekkert verður af því.
Það má vera að einhverjir dagskrárliðir utandyra verði færðir undir þak en það verður í litlum mæli. Við höldum okkar striki og dagskráin verður óbreytt að stærstum hluta. Tónleikarnir á laugardagskvöldinu verða í Gilinu, segir Hulda.
Dagskrá Akureyrarvöku verður dreift í hús á Akureyri og nágrenni á morgun en Hulda hvetur fólk til þess að fylgjast með dagskránni á vef Akureyrarstofu. Svo er bara að klæða sig eftir veðri.