,,Við hlökkum til að taka á móti TF-LÍF"

TF-LÍF í heimsókn á Akureyrarflugvelli meðan hún var enn í notkun    Myndir: Flugsafn Íslands og Auð…
TF-LÍF í heimsókn á Akureyrarflugvelli meðan hún var enn í notkun Myndir: Flugsafn Íslands og Auðunn Níelsson

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum mun  björgunarþyrlan TF-LÍF verða flutt til Akureyrar bráðlega og komið fyrir á Flugsafni  Íslands þar sem þessi margfræga þyrlu mun verða til sýnis um alla tíð.   Þyrla sem er að gerðinni Aérospatiale AS-332L 1 Super Puma var pöntuð af Landhelgisgæslunni i júni 1994 og afhent hér ári seinna með mikilli viðhöfn. Óhætt er að segja að TF- LÍF undir stjórn  Landhelgisgæslunnar hafi svo sannarlega verið dýrmæt og komið að afar mörgum lífsbjargandi aðgerðum í hinum ýmsu veðrum og aðstæðum.  Láta mun nærri að tæplega 1600 manns hafi verið bjargað eða fluttir í sjúkraflugi  með TF-LÍF þennan aldarfjórðug sem  þyrlan ,,stóð vaktina".  Landshelgisgæslan tók TF-LÍF úr notkun árið 2020.

Steinunn María Sveinsdóttir safnsstjóri á Flugsafninu er svo sannarlega í sjöunda himni með nýja safngripinn.  

,,Við hlökkum til að taka á móti TF-LÍF og bæta henni við safnkost okkar. Þyrlan á sér merka sögu og þótti bylting í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar þegar hún kom til landsins árið 1995. Hún snertir strengi í hjörtum margra og miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið, þá ríkir mikil ánægja með að hún verði varðveitt á Flugsafninu.

 Ekki er búið að ákveða nákvæmlega hvenær hún kemur norður en það styttist í það. Sænska fyrirtækið Ex-Change Parts AB sem keypti TF-LÍF, tók úr henni hluti sem þóttu nýtilegir og gáfu safninu þyrluna af miklum góðhug. Þeir hafa einnig gefið safninu varahluti sem nýtast til að gera hana sýningarhæfa og erum við þeim afar þakklát. Við munum vinna að því að gera hana sýningarhæfa þegar hún kemur norður og síðan finna henni varanlegan stað í safninu, en til þess þurfum við að endurraða aðeins og gerum við það í haust áður en Þristurinn kemur inn fyrir veturinn" og Steinunn María bætir við.

,, Henni verður komið fyrir nálægt "litlu systur" þyrlunni TF-SIF og flugvélinni TF-SYN, sem báðar þjónuðu Landhelgisgæslunni dyggilega um áratugaskeið. Stefna safnsins hefur verið að hópa saman flygildum sem tengjast björgunar- og sjúkraflugi en á safninu er sýning um björgunar- og sjúkraflug sem safnið hlaut styrk til úr Safnasjóði. Björgunar- og sjúkraflug skipar stóran sess í flugsögu Íslendinga og mikilvægt að gera því góð skil á Flugsafni Íslands."

  Steinunn María Sveinsdóttir 

,,Í góðu samstarfi við öldungaráð Landhelgisgæslunnar, Landhelgisgæsluna, sænsku kaupendurna, velunnara og styrktaraðila höfum við unnið að þessu góða verkefni síðustu mánuði. Við hlökkum til að taka á móti TF-LÍF og gera betur grein fyrir öllu því góða fólki og fyrirtækjum sem hafa lagt okkur lið,, segir svo í færslu á Facebooksíðu Flugsafnsins.


Athugasemdir

Nýjast