„Við erum að verða einn stór vinahópur við erum það mikið saman“

Píramus & Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík setur upp söngleikinn Mamma Mía! Saga Donnu Sh…
Píramus & Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík setur upp söngleikinn Mamma Mía! Saga Donnu Sheringdan í samvinnu við Framhaldsskólann á Laugum. Vikublaðið leit við á æfingu á dögunum og ræddi við upprennandi leikhúsfólk. Mynd/epe.

Píramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum er um þessar á lokaspretti æfinga fyrir sýningu vetrarins. Leikfélagið setur upp Mamma mía: Saga Donnu Sheridan.  Leikgerðin er byggð á tónlist sænsku goðsagnanna í ABBA, en handritið skrifaði Catherine Johnson sem Þórarinn Eldjárn þýddi.

Mamma mía

 

Hildur Anna Brynjarsdóttir, varaformaður og Hjördís Óskarsdóttir formaður Píramusar & Þispu. Þær eru með taugarnar þandar á lokaspretti undirbúningsins en segja stressið vel þess virði. Myndir/epe.

 Blaðamaður Vikublaðsins hitti fyrir formann og varaformann Píramusar og Þispu á dögunum en þær stöllur Hjördís Óskarsdóttir og Hildur Anna Brynjarsdóttir lofa miklu fjöri með líflegum söngtextum og fallegri uppsetningu. Blaðamaður kíkti einnig á æfingu og smellti af nokkrum myndum. Það var ekki annað að sjá en að spennandi söngleikur sé á leið á fjalirnar í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Leikstjórn er í höndum Karenar Erludóttur og hljómsveitarstjóri er Ágúst Þór Brynjarsson. Frumsýning er á laugardag, 13. nóvember.

Stífar æfingar

„Við erum búin að æfa stíft síðan 20. október. Svo erum við með frábæra hljómsveit sem er líka búin að vera á fullu í æfingum undir dyggri stjórn Ágústar Þórs. Þetta er allt að smella saman þó að sé enn mikið verk fyrir höndum,“ segir Hjördís og Hildur Anna tekur undir.

Mamma mía

Leikhópurinn er nú við stífar æfingar enda margt sem þarf að fínslípa fyrir frumsýningu.

 Nú eru aðeins tveir dagar í frumsýningu og Hjördís og Hildur Anna viðurkenna að taugarnar sé vel spenntar. „Við ætlum að frumsýna á laugardag og verðum með generalprufu á morgun, föstudag. Við finnum alveg fyrir stressinu enda mikið sem á eftir að gera enn þá,“ segja þær og bæta við að þegar svo stórar sýningar eru settar upp þá sé að mörgu að huga. Þær reyni eftir fremsta megni að deila verkefnum á milli þátttakenda en alls koma allt að 40 manns að sýningunni, allt frá miðasölu, ljósastýringu og þeirra sem standa á sviðinu. „Við hjá nefndinni erum einhvern vegin í öllu um þessar mundir og það er mikið kapphlaup síðustu dagana,“ segja þær og hlæja.

Hjördís segir að það sé vissulega áskorun að sinna náminu meðfram leikhússtarfinu en það sé bara skemmtilegt. „Við erum í samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum og það er talsvert af fólki þaðan, ég hugsa að við séum um 30-40 manns allt í allt.“

Gott fyrir félagslífið

Mamma mía

Hjördís í sviðsljósinu á æfingu Píramusar og Þispu. Leiklistina segir hún vera afar gefandi og geri mikið fyrir félagslífið sem hefur átt undir högg að sækja í faraldrinum.

 Covid hefur sett mark sitt á félagslíf framhaldsskólanemenda um allt land og sérstaklega þess vegna segja þær að það hafi verið ríkur vilji til  að setja upp metnaðarfulla sýningu í ár. „Það var engin sýning sett upp í fyrra og það hefur ekki verið mikið félagslíf í covid, þannig að við erum aðeins að reyna peppa það upp. Við ákváðum strax að vera með söngleik og eitthvað fjölskylduvænt. Að lokum varð Mamma mía niðurstaðan enda held ég að allir geti haft gaman af henni,“ útskýrir Hjördís

Mamma Mía er söngleikur og eðlilega er því mikið um söngatriði. Hildur Anna og Hjördís segja að söngæfingar gangi mjög vel. Leikararnir eru misstressaðir fyrir því að þurfa syngja á sviði. Sumir eru vanir en aðrir ekki en þetta gengur eins og í sögu,“ segja þær stöllur og bæta við að mikilvægast í þessu ferli öllu saman er hversu vel það hefur þjappað hópnum saman. „Við erum að verða einn stór vinahópur við erum það mikið saman og gaman að vera í samstarfi með Laugaskóla og kynnast nýju fólki. Það þjappar félagslífinu betur saman enda gaman að kynnast fleiri krökkum,“ segja þær að lokum.

Smellið gif


Athugasemdir

Nýjast