Veturinn skellur á af fullum þunga

Það má líklega fara setja olíu á snjóruðningstækin. mynd: JS
Það má líklega fara setja olíu á snjóruðningstækin. mynd: JS

Haustið í ár er búið að vera með eindæmum milt og gott. Dæmi eru um að rósir hafi verið að springa út í görðum fólks hér norðan heiða nú í nóvember.

En nú er veturinn á leiðinni og hann kemur eins og svo oft áður með krafti. Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun vegna vetrarveðurs næstu daga. Búist er við suðvestan storméljum sunnan- og vestantil á landinu í dag og norðan hvassviðri eða stormi með talsverðri ofankomu norðan- og austantil á landinu seint á morgun og á fimmtudag.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að búast megi við vetrarfærð á heiðum suðvestan- og vestantil á landinu þegar líður á daginn. Auk þess má búast við lélegu ferðaveðri norðan- og austantil á landinu seint á morgun og á fimmtudag.

Fólk er hvatt til að fylgjast vel með veðri og færð og að vera ekki á vanbúnum bílum þar sem von er á slæmri færð.

Nýjast