Vetrar- og útivistarhátíðin Éljagangur verður sett á Ráðhústorgi kl. 17.00 í dag fimmtudag. Þá mun Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri tilkynna um nafnið á snjókarlinum sem risið hefur á torginu. Við sama tækifæri sýna brettastrákar- og stelpur listir sínar og fulltrúar úr meiri- og minnihluta Akureyrarbæjar ásamt tveimur leikmönnum úr kven- og karlaíshokkíliðum Skautafélags Akureyrar reyna með sér í keppnisgreinum þar sem hraði, leikni og samhæfni skipta aðalmáli. Gestir setningarinnar geta svo gætt sér á veitingum sem fyrirtæki á svæðinu gefa við þetta tækifæri.
Þetta er í annað skipti sem Éljagangur er haldinn en hátíðin stendur fram á sunnudag. Að hátíðinni standa EY-LÍV félag vélsleðamanna, Akureyrarstofa, KKA Akstursíþróttafélag, Hlíðarfjall, Skíðafélag Akureyrar, Vetraríþróttamiðstöð Íslands og Skautafélag Akureyrar. Einnig leggja fjölmörg fyrirtæki og ferðaþjónustuaðilar hátíðinni lið. Alla dagskrána er að finna á síðunni www.eljagangur.is og einnig er hátíðin á Facebook undir eljagangur.