Verslun og þjónusta á Húsavík: „Ekki okkar að draga vagninn“

Staða verslunar og þjónustu á Húsavík hefur lengi verið á milli tanna Húsvíkinga. Reglulega hafa undirskriftarlistar farið af stað í bænum í von um að þrýsta á ýmist Krónuna eða Bónus að opna matvöruverslun í bænum og skapa þannig heilbrigða samkeppni. Án árangurs. Kveikjan að  umræðunni nú er sú óvissa sem kom upp um framtíð Húsasmiðjunnar á staðnum; þó þar sé ekki um matvöruverslun að ræða.

Í dag er Samkaup eitt fyrirtækja á þessum markaði á Húsavík en fyrirtækið rekur Nettóbúð og Krambúð á staðnum. Og má því segja að Samkaup njóti einokunarstöðu  í bænum. „Það felst mikil áskorun í því að vera eini aðilinn í dagvöruverslun, það er alltaf hægt að gera betur í versluninni og eðlilega gerir kúnninn alltaf auknar kröfur,“ var haft eftir Ómari Valdimarssyni forstjóra fyrirtækisins árið 2016 í frétt á 640.is. Hann sagði jafnframt að fyrirtækið horfði til framtíðaruppbyggingar á verslun á miðbæjarsvæðinu þar sem Kaskó var þá staðsett; nú Krambúðin. „Það er hringiðan, þar er fólkið“ sagði Ómar og var tekið fram að fyrirtækið hafði nokkuð lengi leitað leiða í húsnæðismálum félagsins á Húsavík en það ekki skilað niðurstöðu. Nú 2021 hefur ekkert breyst í húsnæðismálunum.

Málið rætt í byggðarráði

Byggðarráð Norðurþings var með málefnið til umræðu og mætti Gunnar Egill Sigurðsson framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa á fundinn. Ráðið bókaði að mikilvægt væri að úrbætur verði gerðar á stöðu matvöruverslunar á Húsavík. Gunnar Egill

Vikublaðið spurði Gunnar Egil um framtíðaruppbyggingu Samkaupa á miðsvæði Húsavíkur eins og talað var um 2016. „Það er rétt að við höfum verið að vinna að framtíðarskipulagi í langan tíma og hafa nokkrar tillögur verið gerðar en við erum ekki húseigandi að Garðarsbraut 5 og því er uppbygging á miðbæjarsvæðinu ekki á okkar forræði heldur á forræði húseiganda,“ segir í skriflegu svari Gunnars Egils. Ekki fékkst uppgefið hver hagnaður deilda félagsins á Húsavík hefur verið síðast liðin fjögur ár.

Segir plássleysi vera vandamálið

Hjálmar Bogi Hafliðason, fulltrúi B-lista í sveitarstjórn Norðurþings er gagnrýninn á stöðu verslunar á Húsavík. „Þegar Kaskó var breytt í Krambúðina var ljóst að vöruverð hækkaði í þeirri búð. Húsvíkingar sem og ferðamenn hafa því lagt leið sína í auknum mæli í Nettó, eðlilega. Sú verslun er ágæt í sjálfu sér en allt of lítil. Hún sprakk á á fyrsta ári eftir að hún var opnuð,“ segir Hjálmar og leggur áherslu á að gagnrýni sín snúist ekki um vöruúrval heldur plássleysi. Það er sjónarmið sem algengt er á Húsavík. Hjálmar Bogi

Hjálmar var áheyrnarfulltrúi á fundi Byggðarráðs en hann segir að ekki gangi að forsvarsmenn Samkaupa komi með sömu svör um uppbyggingu og gert var árið 2016. Jafnframt segir Hjálmar að sjálfsagt sé að sveitarfélagið komi að málum og liðki fyrir alls konar uppbyggingu. „Það er hins vegar ekki okkar að draga vagninn. Það eiga Samkaupsmenn að gera sjálfir,“ segir Hjálmar.


Athugasemdir

Nýjast