Verklag og undirbúningur Vaðlaheiðarganga

Í ljósi umræðu undanfarinna daga og framkominna greinargerða um Vaðlaheiðargöng hefur stjórn Vaðlaheiðaganga hf. ákveðið að senda eftirfarandi yfirlýsingu til fjölmiðla. Tilgangur yfirlýsingarinnar er að skýra sjónarmið félagsins og leggja áherslu á að verkefnið hefur verið unnið á faglegum forsendum í fullu samráði við þar til bæra aðila. Mismunandi sjónarmið hafa verið sett fram varðandi verkefnið en forsendur þess hafa í í meginatriðum verið skýrar frá því að stjórnin hóf sín störf.

Leitað hefur verið til helstu sérfræðinga landsins varðandi undirbúning og dreginn lærdómur af fyrri jarðgangaverkefnum. Ákvörðun um hvort af verkefninu verði er á hendi stjórnvalda sem tryggja munu fjármögnun á framkvæmdatíma. Hlutverk Vaðlaheiðaganga hf. er að vinna að faglegum undirbúningi og framkvæmd verkefnisins.

Vaðlaheiðargöng hf. var stofnað á Akureyri 9. mars 2011 og hafa undirritaðir gegnt störfum stjórnarmanna í félaginu frá þeim tíma. Tilgangur félagsins er að annast undirbúning og framkvæmd við ný göng undir Vaðlaheiði sem tengja munu Eyjafjörð og Fnjóskadal og stytta þannig þjóðveginn um 16 km. Eigendur félagsins eru Vegagerðin (51%) og Greið leið ehf. (49%).

Félagið var stofnað í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um að halda áfram undirbúningi við gerð ganganna í kjölfar viðræðuslita ríkisins og lífeyrissjóða um fjármögnun samgönguverkefna. Stofnun og tilgangur félagsins byggði á lögum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem Alþingi samþykkti í júní 2010 (nr. 97/2010). Framhald verkefnisins var háð þeirri forsendu að ríkissjóður myndi fjármagna verkefnið á framkvæmdatíma og að notendagjöld myndu alfarið standa undir fjármögnun verkefnisins til lengri tíma.

Við stofnun félagsins lágu fyrir ýmsar rannsóknir og gögn varðandi verkfræðilega þætti, áætlun umferðar og arðsemi framkvæmdarinnar. Meginhlutverk Vaðlaheiðarganga hf. frá stofnun hefur verið að sjá um áætlanir varðandi kostnað, útboð á verklegum framkvæmdum oggeraviðskiptaáætlun fyrir verkefnið. Hefur félagið leitað til utanaðkomandi ráðgjafa á hverju sviði og kynnt niðurstöður til opinberra aðila sem taka þurfa ákvörðun um framhald málsins. Á seinni hluta síðasta árs var útboð á stærstum hluta verklegra framkvæmda og liggur fyrir tilboð frá IAV/Marti í þá verkþætti sem er 5% undir kostnaðaráætlun varðandi þann þátt. Nú liggja fyrir tilboð eða uppfærðar kostnaðaráætlanir fyrir alla þætti framkvæmdarinnar. Allar áætlanir varðandi verklega þætti eru unnar af Vegagerðinni og byggja þær á reynslu og samanburði við fyrri jarðgangaverkefni ásamt mati á staðháttum.

Fjármögnun

Félagið hefur átt í viðræðum við fjármálaráðuneyti um fyrirkomulag fjármögnunar á framkvæmdatíma. Niðurstöður úr útreikningum varðandi endurgreiðslu lána vegna fjármögnunarinnar hafa verið kynntar ráðuneytinu ásamt því að farið hefur verið ítarlega yfir forsendur. Niðurstaða útreikninga varðandi endurgreiðslur lána eru þær að verkefnið geti endurgreitt lán að fullu á grundvelli veggjalda út frá þeim forsendum sem kynntar hafa verið.

Áhersla hefur verið lögð á að vinna áætlanir og afla gagna með eins vönduðum hætti og unnt er. Fjármálaráðuneytið hefur f.h. ríkissjóðs haft umsjón með mótun lánaskilmála og annast úttekt á forsendum. Meðal annars hefur ráðuneytið leitað til IFS Greiningar varðandi greinargerð um mikilvægustu þætti framkvæmdarinnar. Var sérfræðingum IFS veittur aðgangur að öllum fyrirliggjandi gögnum og sérfræðingum sem koma að verkefninu í þeim tilgangi að greinargerð þeirra yrði eins nákvæm og fagleg og frekast er unnt.

Um skýrslur óháðra aðila

Á undanförnum dögum hafa verið kynntar tvær skýrslur um Vaðlaheiðargöng með skömmu millibili. Annars vegar er um að ræða skýrslu sem unnin var af Pálma Kristinssyni, verkfræðingi, og hins vegar IFS Greiningu. Skýrslurnar og niðurstöður þeirra eru um margt ólíkar. Meginmunurinn er sá að í tilfelli Pálma er að hans sögn einkum byggt á upplýsingum sem veittar voru á opnum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd hinn 7. nóvember sl. og reynslu verkfræðingsins af þeim verkefnum sem hann hefur komið að. Í tilfelli IFS Greiningar var unnið með þau gögn varðandi verkefnið sem helstu sérfræðingar landsins hafa unnið og yfirfarið.

Báðar skýrslurnar fjalla um sömu þætti en niðurstöðurnar eru mismunandi. Segja verður að niðurstöður Pálma Kristinssonar eru í meginatriðum frábrugðnar þeim niðurstöðum sem sérfræðingar og IFS Greiningar komast að í sinni vinnu. Í skýrslum beggja er þó að finna ýmis atriði sem verða skoðuð gaumgæfilega.

Það er von félagsins að ákvörðun um framhald og undirbúning Vaðlaheiðarganga verði tekin sem fyrst til að aflétta óvissu gagnvart verktökum og öðrum sem hagsmuni hafa af framkvæmdinni. Mikilvægt er að tafir á ákvörðun skaði verkefnið ekki enn frekar.

Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, formaður Kristján L. Möller Pétur Þór Jónasson

 

Nýjast