Verkís fagnar afmæli og færir birtu í skammdeginu

Fulltrúar Verkís og Akureyrarbæjar við upplýsta tréð í Gilinu í vikunni.
Fulltrúar Verkís og Akureyrarbæjar við upplýsta tréð í Gilinu í vikunni.

Verkís verkfræðistofa fagnar 80 ára afmæli á árinu og mun af því tilefni lýsa upp starfsstöð sína við Austursíðu 2 á Akureyri á nýjan og spennandi hátt, en stofan lýsir upp allar starfsstöðvar sínar á landinu í tilefni tímamótanna. Að auki hefur Verkís lýst upp tré efst í Gilinu, á flötinni fyrir ofan Myndlistarskólann á Akureyri og í vikunni afhenti Jónas V. Karlesson útibússtjóri Verkís á Akureyri, bænum lýsinguna og lampana til eignar. Það var Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri sem veitti gjöfinni viðtöku.

Fram kom í máli Jónasar að Verkís rekur uppruna sinn aftur til ársins 1932 þegar Sigurður Thoroddsen verkfræðingur stofnaði fyrstu verkfræðistofuna hérlendis. Jónas sagði að auk þess að lýsa upp allar starfsstöðvar sínar, sem eru á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi, myndi Verkís lýsa upp tré í hverju bæjarfélaganna líka. “Lýsingin á starfsstöðvunum mun lifa fram á vor í skammdeginu og verður aftur kveikt á henni í haust. Henni verður hægt að stýra til að fá fram ýmiskonar áhrif og marga liti og mun því verða margbreytileg og fjölbreytt. Við vonumst til að svo verði einnig með lýsinguna á þessu tré, sem við nú færum Akureyrarbæ til varðveislu og eignar. Með því viljum við leggja lið við að færa bæjarbúum örlitla birtu í mesta skammdeginu,” sagði Jónas.

Hann sagði jafnframt að þótt Verkís væri orðið 80 ára þá sé verkfræðistofan hágæða þekkingarfyrirtæki, sem sé í góðum tengslum við þróun og tækninýjungar á öllum sviðum og tengi saman verkfræði, tækni og list.

 

 

Nýjast