Verkefnið um flugstrætó gekk ekki upp

Jónas Þór. Mynd: MÞÞ
Jónas Þór. Mynd: MÞÞ

mth@vikubladid.is

„Því miður gekk verkefnið ekki vel,“ segir Jónas Þór Karlsson Karlsson eigandi fyrirtækisins Sýsli – ferða og ökukennslu ehf, en félagið stóð í sumar fyrir áætlunarferðum til og frá Akureyrarflugvelli með viðkomu í flestum hverfum bæjarins sem og á tjaldstæðinu við Hamra, svonefndum Flugstrætó. Notkun á þessari þjónustu var lítil og við það bættist að vandræði urðu í sumar með viðhald á bílum og varabílar því alloft á ferðinni. „Við ætlum að skoða hvort möguleiki verði á að bjóða þessa þjónustu að nýju í einhverri mynd en það verður aldrei fyrr en á næsta ári,“ segir hann.

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við ákváðum fyrr í sumar að ljúka þessu verkefni,“ segir Jónas Þór. Ein sú helsta er að notkun var mjög lítil og stóð því hvergi nærri undir kostnaði. Erlendir ferðamenn voru 95% þeirra farþega sem nýttu þjónustuna, en nánast engir innlendir ferðamenn. „Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá innlenda ferðamenn líka sem og íbúa á svæðinu svo hún standi undir sér,“ segir hann.

Þá nefnir Jónas Þór að Akureyringar hafi verið ósáttir við að greiða fyrir þjónustuna. „Það gefur augaleið að fyrirtækið getur ekki rekið þessa þjónustu án þess að fá greiðslu fyrir upp í kostnað,“ segir hann og bætir við að engir styrkir eða niðurgreiðslur hafi staðið til boða. Að auki var fyrirtækið óheppið með viðhald á strætisvagni sem notaður var í aksturinn, það reyndist kostnaðarsamt.

Starfsfólk varð fyrir áreiti

Jónas Þór nefnir líka að hann og starfsfólk fyrirtækisins hafi oft lent í áreiti frá aðilum sem höfðu lagt bílum sínum á hópferðarbílastæði við flugvöllinn, þrátt fyrir merkingar á stæðum. „Þetta vandamál hefur lengi verið í gangi,“ segir hann. „Þetta er framkoma sem fyrirtækið getur ekki sætt sig við. Það hefur einnig borið á áreiti frá öðrum ferðaþjónustuaðilum og nokkrum leigubílstjórum í garð okkar starfsfólks, þetta fólk virðist vera á móti þeirri þjónustu sem við buðum.“

Flug sjaldan á réttum tíma

Þá hjálpaði stopul flugáætlun fyrirtækinu ekki að halda þjónustunni úti. „Það var nánast undantekningartilfelli að flug sé á réttum tíma ef þau á annað borð fara í loftið,“ segir Jónas Þór. Eins hafi minna verið um millilandaflug en áætlað var í sumar, sem hafði í för með sér að færri farþegar nýttu sér þjónustuna. Loks nefnir hann að erfiðlega hafi gengið a manna vagninn því skortur væri á bílstjórum á landinu öllu.

„Það er komið í ljós að þetta fyrirkomulag sem við höfðum virkar ekki,“ segir hann. Næstu mánuðir verða nýttir til að skoða hvort hægt sé að veita þjónustuna með öðru formi og einnig hvort styrkir fáist til að halda því út. Jónas Þór segist hafa trú á verkefninu til framtíðar litið og ef nægilegt og gott samstarf verði á milli ferðaþjónustuaðila á Akureyri um það.

 

 


Athugasemdir

Nýjast