Verkefnið Hreyfing og útivist hefur farið vel af stað

Verkefnið Hreyfing og útivist hófst um miðjan janúar á Akureyri en markmiðið er að bjóða bæjarbúum upp á fjölbreytta hreyfingu og útivist, án endurgjalds. Jónatan Magnússon verkefnisstjóri segir að verkefnið hafi gengið mjög vel þessa fyrstu tvo mánuði og að fjölmargir hafi nýtt sér þá fjölbreyttu heilsurækt sem er í boði.  

Jónatan segir að þessi þjónusta sé ekki aðeins fyrir atvinnulausa, heldur alla bæjarbúa sem geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Samherji er aðalstyrktaraðili verkefnsins en fjölmargir aðrir aðilar hafa lagt því lið. Við KA-heimilið gafst fólki kostur á að fara á gönguskíði tvisvar í viku en Jónatan segir að nú standi fólki til boða að fara á skíði í Hlíðarfjalli alla miðvikudaga í mars frá kl. 13-15. Þar geta áhugasamir fengið skíðabúnað að láni í fjallinu, sem og skíðakennslu endurgjaldlaust á þessum tíma. Þeir sem vilja nýta sér þetta, þurfa að koma við KA-heimilinu og fá þar miða í fjallið. Einnig hefur verið stafganga frá KA-heimilinu á fimmtudögum, þar sem þátttakendur fá lánaða stafi og leiðbeiningu við notkun þeirra.

Tvisvar í viku getur fólk komið í Bogann og spilað fótbolta eða gengið um húsið og segir Jónatan að um 50 manns hafi verið mæta þar í hvert sinn. Einnig geta áhugasamir mætt einu sinni í viku í Skautahöllina og farið í  krullu og í Vaxtarræktinni í Íþróttahöllinni er boðið upp á karlapúl tvisvar í viku. Þá er sérstök dagskrá fyrir konur fimm sinnum viku á milli kl. 14 og 15. Jónatan segir að um 40-50 konur hafi mætt í jóga tvisvar í viku í KA-heimilinu, einnig sé þar boðið upp á dans einu sinni í viku og tvisvar í viku er leikfimi fyrir konur í Vaxtarræktinni. "Við höfum líka verið opið hús fyrir krakka í KA-heimilinu tvisvar í viku, þar sem þeir geta tekið þátt í skemmtilegum leikjum."  Þá hófst kastnámskeið í KA-heimilinu á þriðjudag en námskeiðið verður í boði alla þriðjudaga í mars kl. 13.00.

Nýjast