Verkefnið Frá öngli í maga er komið af stað á ný
Markmið verkefnisins er að auka áhuga og skilning þátttakenda á lífríki hafsins, sjómennsku og á hollustu sjávarfangs. Fjölmörg grunnskólabörn hafa tekið þátt í verkefninu undanfarin ár og haft bæði gagn og gaman af. Fyrsta ferðin í haust var farin sl. þriðjudag en það voru krakkar í Síðuskóla sem riðu á vaðið fyrstu tvo dagana. Nemendur í Naustaskóla fóru í siglingu í dag en verkefnið stendur til 16. september og þá verða nemendur allra skólanna búnir að fara í siglingu. Gunnar Gíslason fræðslustjóri segir verkefnið fara vel af stað og að markmiðið sé að festa þetta í sessi. „Ég hef ekki heyrt af neinum krakka sem finnst þetta ekki skemmtilegt, enda nýtur þetta mikilla vinsælda. Við komum við móts við Hollvina Húna II núna þar sem Saga Fjárfestingabanki er farinn úr bænum og við viljum finna þessu farveg," segir Gunnar.