Verkefni við nýja aðveituæð milli Akureyrar og Hjalteyrar lokið

Frá vinnu við lögnina
Frá vinnu við lögnina

„Þetta er stór áfangi og gleðilegur,“ segir Hörður Hafliði Tryggvason fagstjóri hita- og vatnsveitu hjá Norðurorku en stóru verkefni sem staðið hefur yfir undanfarin ár við gerð Hjalteyrarlagnar, aðveituæðar milli Akureyrar og Hjalteyrar, er að ljúka nú í vikunni. Kostnaður við verkið nemur ríflega tveimur milljörðum króna.

Það er fimmti og jafnframt síðasti áfangi lagnarinnar sem nú er að klárast, en hafist var handa við fyrsta áfanga árið 2018 þegar lögð var lögn innanbæjar á Akureyri, en aðrir áfangar voru frá Hjalteyri að Ósi og þaðan til Skjaldarvíkur. Fimmti og síðasti áfangi við lagningu nýrrar aðveituæðar var ríflega 5 kílómetra langur og er frá Skjaldarvík að Hlíðarbraut á Akureyri. „Við erum nú í vikunni að tengja lagnir sitt hvoru megin við Síðubraut og þá á eftir að fylla upp í nokkra skurði, en lokafrágangur vegna jarðvinnu verður í vor,“ segir Hörður.

Hann segir að sú lögn sem fyrir var hafi verið of grönn og flutningsgeta aðveitunnar því verið orðin takmarkandi þátt í að nýta nægilega vel vinnslusvæðið á Hjalteyri. „Eldri lögnin bar ekki allt það heita vatn sem bærinn þurfti á að halda á álagstímum og það var kveikjan að því að leggja nýja og stærri lögn. Þessi nýja lögn er hrein viðbót við þá sem fyrir er, en við nýtum þá eldri áfram líka,“ segir Hörður. Á Skjaldarvík var dælustöð sem sett var upp til að auka öryggi og skapa nægan þrýsting á vatnið í lögninni. Umtalsverður kostnaður fylgdi rekstri dælustöðvarinnar en Hörður segir að nú gefist færi á að slökkva á henni.

Rannsóknarholur við Ytri Haga

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri hefur staðið undir allri aukningu á hitaveitunni frá árinu 2003 en útlit er fyrir að ekki sé hægt að auka frekar vinnslu þar og er  því  horft lengra til norðurs eftir meira magni af heitu vatni. Fyrr í vikunni hófst borun á tveimur 500 metra djúpum rannsóknarholum i landi Ytri-Haga sem Norðurorka hefur umráð yfir. Verktaki við þá borun er Ræktunarfélag Flóa og Skeiða og segir Hörður að á bilinu 6 til 7 vikur taki að vinna verkið, en gera megi ráð fyrir töfum vegna veðurs um hávetur.  „Við höfum góðar væntingar um að á þessum slóðum sé nægt vatn sem dugar eitthvað áfram, en það kemur auðvitað ekki í ljós fyrr en holurnar hafa verið boraðar,“ segir Hörður.

Heitavatnsnotkun hefur aukist umtalsvert á Akureyri á liðnum árum, raunar tvöfaldast frá árinu 2002. Vissulega hefur íbúðum fjölgað á tímabilinu og íbúum einnig en alls ekki í takt við notkun á heitu vatni. Hörður segir að kerfið sé að eldast og gera megi ráð fyrir að hér og hvar séu lekar, en mestu skiptir eflaust að hver og einn notar meira af heitu vatni nú en var fyrir tveimur áratugum. „Nú erum við að leita eftir vatni talsvert langt frá Akureyri, það fylgir því meiri kostnaður að sækja vatnið æ lengra.“

Þess má geta að nú er Norðurorka farin af stað með vitundarvakningu um stöðu hitaveitu á Akureyri og í nágrenni. Síðustu daga hefur t.d. staðið yfir sýning á Glerártorgi þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér leiðir til ábyrgrar orkunotkunar. Á sömu nótum var í liðinni viku frumsýnt nýtt myndband um heita vatnið þar sem notendur eru hvattir til að sóa því ekki. Myndbandið má sjá á heimasíðu Norðurorku og á Facebook-síðu fyrirtækisins.


 


Athugasemdir

Nýjast