Verkefni að fyrirmynd Frú Ragnheiðar í undirbúningi á Akureyri

Verkefnið snýr að skaðaminnkun fyrir jaðarsetta hópa í samfélaginu.
Verkefnið snýr að skaðaminnkun fyrir jaðarsetta hópa í samfélaginu.

Verkefni sem snýr að skaðaminnkun fyrir jaðarsetta hópa í samfé­laginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni í æð er í undirbúningi á Akureyri. Verkefnið er á vegum Rauða krossins og er að fyrirmynd Frú Ragnheiðar á höfuðborgarsvæðinu, en þar er sérinnréttuðum bíl ekið um götur höfuð­borgarsvæðisns sex kvöld í viku.

Þar er annars vegar starfrækt hjúkrunarmóttaka þar sem einstaklingar geta fengið heilbrigðisaðstoð eins og aðhlynningu sára, umbúðaskipti, blóðþrýstingsmælingu, saumatöku og almenna heilsuráðgjöf. Hins vegar er boðið upp á nálaskiptaþjónustu, þar sem einstaklingar sem sprauta vímuefnum í æð geta komið og sótt hreinar nálar, sprautur, nálabox og annað til að draga úr líkur á smiti. Um sjálfboðastarf er að ræða.

Sniðið að stærð bæjarins

Hafsteinn Jakobosson, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Eyjafirði, segir að þótt verkefnið verði í anda Frú Ragnheiðar muni það eðlilega taka mið af því að hér sé um fámennara svæði að ræða. „Við rennum svolítið blint í sjóinn með þetta og það á eftir að skýrast betur hvernig þetta verður nákvæmlega,“ segir Hafsteinn.

Hann segir greinilega þörf vera fyrir slíka þjónustu á svæðinu. „Við fórum í nokkurra mánaða undirbúningsvinnu þar sem niðurstaðan var sú að þetta væri eitthvað sem þyrfti að koma á laggirnar.“

Verið er að leggja lokahönd á undirbúning. Óvíst er hvenær verkefnið fer af stað en Hafsteinn segir að mögulega verði það fyrir jól. 

Nýjast