Verkefnastaðan hjá Slippnum með allra besta móti

Verkefnastaðan hjá Slippnum Akureyri er með allra besta móti um þessar mundir og útlitið næstu vikur og mánuði er gott, að sögn Antons Benjamínssonar framkvæmdastjóra. "Þessi árstími hefur oft verið þungur en árið fer vel af stað og það er mjög mikið að gera, sem hefur þýtt að við höfum þurft að bæta við 8-10 starfsmönnum síðustu vikur."  

Anton segir þetta vissulega jákvæða þróun en að fara þurfi varlega í að bæta við fleiri starfsmönnum, enda sé töluvert um að undirverktakar séu einnig að vinna fyrir Slippinn. "Það er ekki óalgengt að hér séu um 20 manns á svæðinu frá öðrum fyrirtækjum. Við höfum mest verið með erlend verkefni síðustu vikur og þá aðallega viðhalds- og viðgerðarverkefni á grænlenskum skipum. Íslenskar útgerðir hafa af skiljanlegum ástæðum haldið að sér höndum en þetta eru þó okkar helstu viðskiptavinir og við verðum að taka mið af þeirra stöðu," sagði Anton.

Nýir eigendur tóku við rekstri Slippsins fyrir þremur og hálfu ári og sagði Anton að frá upphafi hafi verið unnið að því að leita eftir verkefnum frá erlendum aðilum og það hafi skilað sér. "Það hefur myndast ákveðið traust á milli okkar og smærri og stærri útgerðaraðila á Grænlandi og við erum að uppskera samkvæmt því. Þá erum við byrjaðir að vinna við breytingar á Harðbak, fyrir fyrirtækið Neptune ehf., sem skráð er á Akureyri. Íslensk skip eru væntanleg og vonandi erlend líka. Þá er búið að fastsetja eitt stórt grænlenskt verkefni eftir tæpt ár og það er ósköp þægilegt að vita af því. Við höfum aldrei bókað verkefni svo langt fram í tímann og stundum hefur maður ekki séð fyrir verkefni nema næstu tvo daga. Það getur verið býsna taugastrekkjandi, hafandi 100 manns í vinnu. Sem betur fer hefur okkur alltaf lagst eitthvað til."

Anton segir að Slippurinn sé með nokkra menn í vinnu í aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi, við uppsetningu á lögnum og búnaði. "Þetta er fyrsta nýja stóra nýja fyrirtækið á Akureyri í nokkuð langan tíma. Það er vissulega jákvætt og mun skipta marga hér í bæ máli."

Málmiðnaðarmenn hafa ekki alltaf legið á lausu á svæðinu og undanfarin ár hefur verið skortur á iðnaðarmönnum. "Við höfum verið duglegir að taka nema og það mættu fleiri vera duglegri að taka þátt í því. Við höfum einnig verið með erlenda iðnaðarmenn og þeir björguðu mörgum fyrirtækjum í þenslunni. Nú er hins vegar mikil ásókn í vinnu og þá aðallega frá verkamönnum en því miður getum við ekki tekið við þeim öllum."

Varðandi síðasta ár sagði Anton að verkefnastaðan hefði verið frekar erfið í upphafi og lok árs en nokkuð góð þess á milli. "Við erum því nokkuð sáttir við árið í heild. Okkur hefur tekist að vera með reksturinn réttu megin við núllið frá upphafi og náð að byggja fyrirtækið upp innan frá. Við erum því nokkuð bjartsýnir á framtíðina þrátt fyrir allt."

Nýjast