„Verið að úthýsa okkur án þess að fyrir liggi gögn um að grasið bíði skaða af“

Bílaklúbbur Akureyrar hefur efnt til bílasýninga í nær hálfa öld. Undanfarin rúman áratug í Boganum,…
Bílaklúbbur Akureyrar hefur efnt til bílasýninga í nær hálfa öld. Undanfarin rúman áratug í Boganum, en nú hefur meirihluti fræðslu- og lýðheilsuráðs lagt til að sýningin næsta þjóðhátíðardag verði sú síðasta. „Þeir vilja að grasið fái að njóta vafans,“ segir Einar Gunnlaugsson formaður BA. Mynd: BA/Facebook

mth@vikubladid.is

„Við erum alls ekki sátt við þessa afgreiðslu og þykir skítt að verið er að úthýsa okkur úr Boganum án þess að fyrir liggi nein gögn um að sýning hafi slæm áhrif á gervigrasið,“ segir Einar Gunnlaugsson formaður Bílaklúbbs Akureyrar.

Meirihluti fræðslu- og lýðsheilsuráðs Akureyrar hefur lagt til að hin árlega bílasýning klúbbsins sem verið hefur í Boganum á þjóðhátíðardaginn í rúman áratug verði haldin þar nú í síðasta sinn nema viðunandi lausn finnist til að verja gervigrasið. Fulltrúi M-lista í bæjarstjórn, Viðar Valdimarsson bókaði á fundi ráðsins að Akureyrarbær hefði engin göng undir höndum sem sýndu að bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar hefði neikvæð áhrif á gervigras Bogans.

 „Þeir vilja að grasið fái að njóta vafans,“ segir Einar. Hann nefnir að undir öllum dekkjum á þeim bílum sem eru á sýningunni séu tréplattar til að verja grasið. „Við höfum ekki séð að grasið verði fyrir skaða þegar við tökum sýninguna niður. Það er ansi hæpið að við völdum slíkum skaða á grasinu að það réttlæti að úthýsa okkur algjörlega.“Hann bendir einnig á að Boginn sé fjölnota íþróttahús í eigu bæjarins og að Bílaklúbburinn sé innan raða aksturíþróttafélaga. „Það er stundum þannig að ef íþróttin snýst ekki um bolta þá á hún undir högg að sækja.“

Önnur hús henta ekki

Einar segir sýninginguna þurfa að vera innandyra, sumir þeirra bíla sem sýndir eru yrðu ekki lánaðir annars. Tveir staðir hafi verið nefndir, Reiðhöllin og Skautahöllin en hvorugur hentar undir bílasýningu. Sandur er á gólfi Reiðahallarinnar sem ekki fari vel, bílastæði ómalbikuð og þá fari betur á því að sýningin sé innanbæjar en ekki langt frá. Skautahöllin sé alltof lítil.  „Staðan er sú að sýningin að ári er í uppnámi, það er ekki til staðar annað sýningarrými í bænum sem hentar undir sýninguna. Vissulega leiðinlegt þegar við erum að detta í að hálf öld sé frá fyrstu sýningunni,“ segir Einar, en Bílaklúbbur Akureyrar var stofnaður árið 1974 en bílasýning á 17. júní á Akureyri á sér lengri sögu en klúbburinn. „Sýningar voru byrjaðar einu eða tveimur árum áður en klúbburinn var stofnaður.“

Um 4 til 5 þúsund gestir sækja sýninguna að jafnaði og segir Einar að bæjarbúar hafi margir hverjir fyrir hefð að líta við á bílasýningunni og þyki hún ómissandi hefð á þjóðhátíðardaginn.


Athugasemdir

Nýjast