Verður nafninu á Akureyri breytt?

Nafnið Akureyrarkaupstaður gæti senn heyrt sögunni til.
Nafnið Akureyrarkaupstaður gæti senn heyrt sögunni til.

Á síðasta fundi bæjarráðs Akureyrar var umræða um breytingu á heiti sveitarfélagsins. Var sviðsstjóra stjórnsýslusviðs falið að vinna tillögu í málinu. Heiti sveitarfélagsins er Akureyrarkaupstaður en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvert nafnið verður, yrði því breytt.

Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stórnsýslusviðs, segir í samtali við blaðið að nafnið Akureyrarkaupstaður sé lítið notað. Helst sé það hjá ráðuneytum og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

„Ég tel að margir bæjarbúar átti sig ekki á því að bærinn heiti í raun Akureyrarkaupstaður en ekki Akureyrarbær,“ segir Halla. En liggur ekki beinast við að breyta nafninu í Akureyrarbæ?

„Það er ekkert komið á það stig ennþá að ræða hvert nýtt nafn yrði,“ segir Halla.

Málið mun fara aftur fyrir bæjarráð og þá verður ákveðið í hvaða ferli það fer.


Athugasemdir

Nýjast