Verðum að klára þennan leik
KA/Þór tekur á móti Haukum er liðin mætast í KA-heimilinu kl. 16:00 í dag í N1-deild kvenna í handknattleik. Leikurinn er mikilvægur fyrir bæði lið í baráttunni í neðri hluta deildarinnar. Liðin eru á svipuðu róli í deildinni með tvö stig hvort, KA/Þór eftir þrjá leiki en Haukar fjóra leiki. Þetta er svakalega mikilvægur leikur og við ætlum klárlega að taka tvö stig úr þessum leik. Ég vona líka að það verði jafn vel mætt í KA-heimilið og í síðasta leik þar sem myndaðist mjög góð stemmning. Það er eitthvað sem hjálpar okkur klárlega, segir Ásdís Sigurðardóttir leikmaður KA/Þórs.
Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að klára þessa heimaleiki gegn þessum liðum sem við komum til með að berjast við um sæti í úrslitakeppninni. Líkt og við eru Haukar með ungt lið í bland við eldri leikmenn en voru einnig að bæta við sig útlendingi sem gæti þurft að hafa góðar gætur á. Þetta gæti orðið hörkuviðureign en við verðum að klára þennan leik, segir hún.