Akureyri tekur á móti FH í ansi mikilvægum leik í Höllinni á Akureyri í kvöld í N1-deild karla í handknattleik og hefst leikurinn kl. 19:00. Akureyri er í fjórða og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina með 22 stig, stigi meira en Fram sem er í fimmta sæti og á leik gegn Gróttu í kvöld. Það má lítið útaf bregða í síðustu þremur leikjunum ætli norðanmenn sér í úrslitakeppnina og hvert stig mikilvægt. FH situr í toppsæti deildarinnar með 25 stig, líkt og grannar sínir í Haukum, en Akureyri hefur ekki enn tekist að vinna FH í vetur.
Það eru allir leikirnir úrslitaleikir sem eftir eru og við spilum ekki annan svona leik eins og við gerðum gegn Haukum. Núna þurfum við á öllum stuðningi að halda og verðum að fylla Höllina gegn FH í kvöld, skapa stemmningu og vinna þann leik. Það kemur ekkert annað til greina, segir Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, um leikinn í kvöld.