"Verðum að fara hala inn stig"

Þrír leikir fara fram í N1-deild karla í kvöld. Á Ásvöllum taka Haukar á móti Akureyri en einnig mætast topplið Fram og Valur á Hlíðarenda og og HK tekur á móti FH. Akureyri hefur tapað tveimur leikjum í röð og hefur tvö stig í sjötta sæti eftir þrjá leiki en mikil meiðsli eru enn að hrjá norðanmenn.

Akureyringar brugðu á það ráð að kalla til leiks varnarjaxlinn Hrein Þór Hauksson frá Svíþjóð, en Hreinn hefur verið búsettur erlendis undanfarið. Hreinn svaraði kallinu og verður með liðinu í kvöld og í næstu 1-2 leikjum eftir það. „Við erum aðeins að reyna að stokka upp í leikmannahópinn með þessu útspili,“ segir Hlynur Jóhannsson framkvæmdarstjóri Akureyrarliðsins.

Haukar líta vel út í upphafi móts. Liðið hefur fjögur stig í öðru sæti deildarinnar og þar eru ungir menn að stíga upp, sem geta reynst Akureyringum erfiðir í kvöld. „Þeir hafa verið að spila vel og Aron (Kristjánsson) er greinilega kominn með sitt handbragð á þetta. Þetta eru ungir og efnilegir strákar sem virðast vera vel spilandi og það sem við þurfum að gera er að stoppa tempóið hjá þeim og stjórna hraðanum í leiknum,“ segir Sævar Árnason aðstoðarþjálfari Akureyrar um leikinn í kvöld. Aron Kristjánsson þjálfari Hauka reiknar með hörkuleik á Ásvöllum þótt norðanmenn mæti með laskað lið til leiks.

„Við vitum alveg hvað þeir geta og þeir hafa sterkt lið þótt vissulega séu breiddin minni hjá þeim núna með alla þessa menn meidda. Mínir menn hafa hins vegar verið upp og niður og þetta verður eflaust stál í stál í kvöld,“ segir Aron.

Nánar er fjallað um N1-deild karla í Vikudegi í dag.

Nýjast