Verðum að fara að ná í stig
Þór leikur sinn annan heimaleik í vetur er liðið tekur á móti Breiðabliki í Höllinni í kvöld kl. 19:15. Þór bíður enn eftir sínum fyrstu stigum á leiktíðinni og eftir tvö töp sl. helgi eru norðanmenn á botni deildarinnar eftir þrjá leiki og þrjú töp. Breiðablik hefur tvö stig eftir tvo leiki og situr í fjórða sæti deildarinnar. Við verðum að fara að ná í stig, það er alveg ljóst. Ég veit ekki mikið um þetta Blikalið en ég er búinn að vera reyna að safna upplýsingum um það og það er alveg ljóst að við þurfum að hafa fyrir þessu, segir Nebosja Vidic, þjálfari Þórs, um leikinn í kvöld.