Verða óvænt úrslit á Þórsvelli í dag?

„Við erum nokkuð vel stemmd og hlökkum bara til verkefnisins,“ sagði Hlynur Svan Eiríksson þjálfari Þórs/KA við Vikudag í morgun. Það verður stórleikur á Þórsvelli í dag þegar Þór/KA og þýska liðið Turbine Potsdam mætast í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evópu kvenna. Leikurinn er í fyrra fallinu en hann hefst kl. 16:15 og er frítt á völlinn. Þetta er fyrri leikur liðanna en liðin mætast aftur í Þýskalandi eftir viku. Það er ljóst að við ramman reip verður að draga fyrir norðanliðið en þýska liðið er eitt það besta í Evrópu.

Potsdam hefur unnið þýsku deildina sl. þrjú ár og hafnaði í öðru sæti í Meistaradeildinni í fyrra eftir tap gegn Lyon í úrslitum og en vann deildina árið áður. Það er nokkuð víst að leikmenn Þórs/KA þurfa að hitta á einn besta leik sinn á ferlinum til þess að eiga möguleika í dag.

„Við höfum reynt að undirbúa okkur vel fyrir leikinn og við ætlum að reyna að koma þeim á óvart,“segir Hlynur.

Það eru gleðitíðindi fyrir Þór/KA að 90 prósent líkur eru á því að fyrirliðinn Rakel Hönnudóttir geti spilað í dag, en hún er óðum að jafna sig. Hins vegar Arna Sif Ásgrímsdóttir spurningarmerki sökum meiðsla og þá er aðalmarkvörður liðsins, Berglind Magnúsdóttir, stödd í Danmörku og því mun hin unga Helena Jónsdóttir standa á milli stanganna í dag.

Nýjast