Venjuleg árstíðar-eitrun

Talsvert hefur verið fjallað um eitrun í kræklingi í Eyjafirði í dag í kjöfar fréttatilkynningar frá Matvælastofnun. Eitrun í kræklingi er hins vegar vel þekkt á sumrin og er þaðan m.a. komin sú alþjóðlega þumalputtaregla að ekki skuli borða krækling sem tíndur er í mánuði sem ekki hefur "r" í nafni sínu. Það myndi vera júní, júlí og ágúst!  Vegna umfjöllunarinnar um eitrun þessa hefur Norðurskel sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Vegna fréttar Matvælastofnunnar um eitrun í krækling í Eyjafirði sem nokkrir fréttamiðlar hafa fjallað um í dag vill Norðurskel ehf. koma eftirfarandi á framfæri.

Umrædd eitrun virðist árlega vekja mikla athygli þegar hennar verður vart í Eyjafirði en vert er að geta þess að þetta er ekki einsdæmi heldur árlegur viðburður, jafn í Eyjafirði, annars staðar á landinu og víða um heim þar sem kræklingur er ræktaður, og er því eitthvað sem allir kræklingaræktendur um allan heim búa við og hafa gert síðustu 200 árin. Vitað er að hún kemur upp á tímabili yfir sumarmánuðina og sökum hennar eru gerðar reglubundnar athuganir í samstarfi við eftirlitsstofnanir til að tryggja að aldrei fari vara frá félaginu sem er annað en gæðavara. Aðeins er um tímabundið ástand að ræða og hreinsar kræklingurinn sig fullkomlega þegar tímabilinu er lokið.
Kræklingur úr Eyjafirði getur aðeins talist eitraður þegar hann er uppskorinn/týndur á þessu tímabili en með stöðugu eftirliti og öflugu samstarfi við eftirlitsstofnanir er tryggt að aldrei fari kræklingur á markað þegar þessar aðstæður eru í hafinu.
Þess ber jafnframt að geta að Norðurskel uppsker krækling af fleiri svæðum hérlendis en úr Eyjafirði og því er jafnan mögulegt að fá gæðakrækling frá Norðurskel þó svo að Eyjafjörður sé lokaður.
Norðurskel hefur verið leiðandi fyrirtæki hérlendis í kræklingarækt frá árinu 2000. Félagi starfrækið einu kræklingavinnslulínu landsins í vinnslu sinni í Hrísey og selur vörur sínar undir ströngu eftirliti jafnt hér heima sem erlendis.

Nýjast