Velheppnaðir skólatónleikar í Hofi

Frá tónleikunum í Hofi.
Frá tónleikunum í Hofi.

Um 1100 grunnskólabörn og starfsfólk 4.-6 bekk grunnskóla úr öllum Eyjafirði, allt frá Fjallabyggð til Grenivíkur og austur til Húsavíkur koma í Menningarhúsið Hof þessa dagana til að njóta tónlistarævintýrsins um Stúlkuna í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson við sögu Jónasar Hallgrímssonar. Haldnir verða níu tónleikar á þremur dögum en síðustu tónleikarnir eru á morgun miðvikudag.

Verkefnið er samstarfsverkefni Tónlistarfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og List fyrir alla og styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra. „Það hafa verið ákaflega glaðir nemendur og starfsfólk sem hafa komið í hús og við sem höfum tekið á móti þeim haft sérstaka ánægju af því að sjá þau í Hofi og upplifa ævintýrið um Stúlkuna í turninum með þeim,“ er haft eftir Kristínu Sóley Björnsdóttur viðburðastjóra í Hofi í fréttatilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar.

Auk Stúlkunnar í turninum voru flutt lögin um James Bond og Á Sprengisandi í útsetningum Guðmundar Óla Gunnarssonar hljómsveitarstjóra.  Farið var eftir sóttvarnarreglum í hvívetna. 

 

 


Athugasemdir

Nýjast