Vel heppnuð hátíð á Akureyri um helgina

„Þetta var bara yndislegt og allt gekk bara ofboðslega vel,” segir Margrét Blöndal skipuleggjandi hátíðarinnar „Ein með öllu og allt undir” sem haldinn var á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hún segir aðsókn á viðburði helgarinnar hafa verið mjög góða. „Það var eiginlega fullt á alla viðburði hjá okkur. Svo var mikið brosað sem var mjög ánægjulegt því það var markmiðið með þessu öllu saman, að búa til bros.”

Ekki er ljóst hvað margir gestir voru samankomnir á Akureyri um helgina þar sem ekki er selt inn á viðburði, en þó er ljóst að þónokkur fjöldi var í bænum um helgina. „Á laugardeginum var bærinn fullur af fólki bæði á Ráðhústorginu og í göngugötunni og einnig á laugardagskvöldinu. Hinsvegar er það ekki markmið okkar sem standa að hátíðinni að fá endalausann fjölda af gestum, okkur langar bara að búa til góða stemmningu og að bæjarbúar og þeir gestir sem mæta til okkar séu ánægðir. Það er markmiðið og það lukkaðist vel,” segir Margrét Blöndal. 

Nýjast