Vel heppnaðri gönguviku lokið

Gönguviku Akureyrar og nágrennis, þar sem göngur af ýmsum toga og erfiðleikastigum voru í aðalhlutverki, lauk um helgina. Framkvæmd Gönguvikunnar, sem haldin var í þriðja sinn, tókst vel í alla staði og þátttakan góð. Gönguvikan hófst sunnudaginn 3. júlí sl. þegar gengið var úr Öxnadal upp á Jökulborg og þaðan eftir fjallatoppum fyrir botni Glerárdals að Kerlingu, samtals 6 tindar, og endað við Finnastaði í Eyjafirði.  

Síðasta gangan var í gær þegar gengið var á Flöguselshnjúk í Hörgárdal undir fararstjórn Bjarna E. Guðleifssonar og mættu tæplega 40 manns í gönguna. Hjá Glerárdalshringnum 24X24 voru þátttakendur 77 talsins, á öllum aldri og komu alls staðar af landinu. Gönguvikan er samvinnuverkefni Akureyrarstofu, Naturalis, Ferðafélags Akureyrar, Glerárdalshringsins 24X24 og Ferðafélagsins Hörgs.

Nýjast