Vel á fjórða þúsund bæjarbúa skrifuðu undir mótmæli gegn miðbæjarskipulagi

Knútur Karlsson heimsótti Hermann Jón Tómasson bæjarstjóra á Akureyri í dag ásamt fríðu föruneyti og afhenti honum undirskriftalista með 3.775 undirskriftum bæjarbúa. Knútur er einn þeirra sem stóð að söfnun undirskrifta, þar sem lýst er andstöðu við nokkur atriði í nýju deiliskipulagi miðbæjarins á Akureyri.  

Þar er lýst andstöðu við er gerð síkis, sem og fyrirætlanir um mörg háhýsi á litlu svæði. Óskað er eftir því að nýtt og léttara yfirbragð verði á miðbænum og þá er í nafni íbúalýðræðis skorað á bæjaryfirvöld að draga tillöguna til baka eða gangast að öðrum kosti fyrir almennri og bindandi kosningu samhliða bæjarstjórnarkosningu um skipulagstillöguna. Bæjarstjóri sagði að undirskriftirnar yrðu teknar með og litið á þær sem hluta af þeim athugasemdum sem koma inn vegna miðbæjarskipulagsins.

Nýjast