Tæp þrjátíu prósent félaga í stéttarfélagi Einingar-Iðju í Eyjafirði sem svöruðu könnun Gallups sögðust vera án atvinnu eða hafa orðið atvinnulaus hluta ársins vegna afleiðinga af COVID-19. Hlutfallið var hæst í ferðaþjónustunni. Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju skrifar í blaðinu. „Niðurstaða sýnir vel hversu gríðarleg áhrif faraldurinn hefur haft á launafólk,“ segir Björn Snæbjörnsson.
Heildarlaun 545 þúsund krónur í september
Gallup spurði einnig um heildarlaun í aðalstarfi í september. Heildarlaun karla voru að jafnaði kr. 574.912 og höfðu hækkað um kr. 13.996 miðað við sama mánuð árið 2019. Konur voru að jafnaði með kr. 509.884 í heildarlaun í mánuðinum og hækkuðu um kr. 24.253 miðað við sama mánuð í fyrra. Meðallaunin voru að jafnaði kr. 545.012 í mánuðinum og hækkuðu um kr. 21.738 miðað við september árið 2019. Þessar launahækkanir má að langstærstum hluta rekja til lífskjarasamninganna svokölluðu. Könnunin var framkvæmd í október og nóvember. Úrtakið var 1500 manns úr félagaskrá Einingar-Iðju og var fjöldi svarenda 625.