Vegagerðin kaupir gögn um Vaðlaheiðargöng fyrir um 120 milljónir króna

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði frá því á dögunum að ákveðið hafi verið að Vegagerðin keypti gögn Greiðar leiðar ehf. vegna undirbúnings framkvæmda við Vaðlaheiðargöng. Jafnframt sagði samgönguráðherra að forval vegna Vaðheiðarganga myndi hefjst innan skamms.  

Vikudagur leitaði til Hreins Haraldssonar vegamálastjóra og spurði hann hver staða þessara mála væri í dag. Hreinn sagði það rétt að ákveðið hafi verið að kaupa gögnin af Greiðri leið. "Formlega á eftir að ganga frá því, sem skýrist eingöngu af önnum í ýmsum málum og stendur uppá okkur."

Aðspurður um hvað Vegagerðin myndi greiða fyrir gögnin sagðist Hreinn ekki vera með nákvæma tölu á því. Hann sagði að greiddur yrði útlagður kostnaður Greiðar leiðar við rannsóknir og annan undirbúning og að upphæðin væri nálægt 120 milljónum króna. Hreinn sagði að undirbúningur forvals væri kominn í gang en áætlað er að hann taki um tvo mánuði. "Við höfum ekkert nýtt um fjármögnun, ráðherra hefur greint frá áhuga ýmissa aðila og þetta kemur væntanlega í ljós við forval."

Aðspurður sagðist Hreinn ekkert geta sagt til um hvenær hægt væri að hefja framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng, það fari m.a. eftir áhuga og getu fjárfesta. Ef áhugi væri fyrir hendi væri tæknilega hægt að hefja framkvæmdir einhverjum mánuðum eftir að aðili til að taka að sér verkið hefur verið valinn. Ráðgert er að framkvæmdin taki um þrjú ár.

Nýjast