Veður fer versnandi og færð tekin að spillast

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hvasst sé nokkuð víða um vestan- og norðanvert landið, hviður upp í um 40 m/sek á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði hefur verið lokað vegna veðurs. Það er hálka og snjóþekja á vegum á Suðurlandi, og skafrenningur á fjallvegum. Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðar vegna veðurs.

Á Vesturlandi er víðast hálka eða snjóþekja. Brattabrekka er ófær og þar er vonsku veður en vísað er á Heydal sem hjáleið. Mjög hvasst er á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi og mjög hvasst. Þæfingur er á köflum í Ísafjarðardjúpi. Bjarnarfjarðarháls er þungfær. Ófært er á Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, og eins úr Bjarnarfirði norður í Norðurfjörð.

Það er snjókoma og skafrenningur á Norðurlandi, víða hvasst og sums staðar mjög blint. Þæfingsfærð er á Vatnsnesvegi, Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. 

Þæfingsfærð er yfir Fjöllin en á Austurlandi er víðast snjóþekja eða nokkur hálka. Hálka er einnig með suðausturströndinni. 

Á vef Veðurstofu Íslands  segir að það slái í storm víða um land í dag. Vindstyrkur samfara ofankomu á Norður- og Austurlandi þýðir að á þeim slóðum verður allvíða stórhríð í dag. Sérstök athygli er vakin á hættulegum vindstrengjum við Vatnajökul undir kvöld.  Áfram stíf norðanátt á morgun (föstudag) með ofankomu fyrir norðan og austan, en dregur úr vindi og úrkomu svo um munar seinnipartinn á laugardag.

Nýjast