Vaxtarsamningur Eyjafjarðar endurnýjaður til tveggja ára

Tæpar 40 milljónir króna koma til úthlutunar á hvoru ári.
Tæpar 40 milljónir króna koma til úthlutunar á hvoru ári.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) og iðnaðarráðuneytið undirrituðu í dag samning um Vaxtarsamning Eyjafjarðar sem gildir fyrir árin 2012 og 2013. Til samningsins er varið 75 milljónum króna á samningstímanum úr ríkissjóði.  Enginn Vaxtarsamningur tók gildi fyrir árið 2011, en með nýjum samningi verður ætluðum fjármunum þess árs varið til uppbyggingar á svæðinu og leggst fjárhæðin við framlög ráðuneytisins 2012 og 2013. Þannig verða 37,5 milljónir króna til úthlutunar á hvoru ári. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir að markmið samningsins sé að efla nýsköpun á starfssvæði AFE, þétta innviði atvinnulífsins á svæðinu og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Hann segir að gert sé ráð fyrir einu stöðugildi hjá AFE vegna Vaxtarsamningsins og verður auglýst reglubundið eftir umsóknum um stuðning samningsins við atvinnuverkefni á svæðinu.

“Með samningnum verður Vaxtarsamningur Eyjafjarðar formlega eitt af stærstu verkefnum Atvinnuþróunarfélagsins. Allar atvinnugreinar og öll verkefni munu eiga jafna möguleika til að sækja um fjármuni úr samningnum, að uppfylltum skilyrðum hans og úthlutunarreglum. M.a. eru sett skilyrði um samstarf fyrirtækja í verkefnum og að aðilar að hverju verkefni leggi fram jafn háa upphæð í verkefni og sótt er um úr Vaxtarsamningnum,” segir Þorvaldur.

Hann segir að nýi Vaxtarsamningurinn sé  einfaldari og skilvirkari en fyrri Vaxtarsamningar og er markmiðið að fjármagnið nýtist enn betur í verkefnin sjálf. “Skilyrði sem sett eru fyrir úthlutunum eru þess eðlis að þau eiga að hvetja aðila til samstarfs í atvinnusköpunarverkefnum. Hvatinn sem verið hefur til aukins samstarfs í atvinnulífinu mun því halda áfram með nýja samningnum.”

Þorvaldur segir að Vaxtarsamningur Eyjafjarðar hafi skilað mörgum afar góðum verkefnum á síðustu árum sem ýmist hafa þegar komist á legg eða eru enn í mótun. “Það eru spennandi verkefni í gerjun á svæðinu og margir möguleikar sem opnast hafa í ferðaþjónustu og útflutningi, ekki síst vegna endurbóta á Akureyrarflugvelli og miklum möguleikum svæðisins í tengslum við það.”

Nýjast