Vaxandi starfsemi hjá Læknastofum Akureyrar

Starfsemi Læknastofa Akureyrar hefur vaxið mjög á undanförnum árum, en rúmt ár er frá því hún var flutt í rúmgott húsnæði við Hafnarstræti 97, Krónuna. Við það tækifæri var fyrsta einkarekna skurðstofan utan höfuðborgarsvæðisins tekin í notkun og hefur nýting hennar farið fram úr björtustu vonum.  Fjölmargir sérfræðilæknar og aðrir sérfræðingar eru með aðstöðu hjá Læknastofum Akureyrar og er stefnt að því að fjölga þeim til framtíðar litið.  

Guðni Arinbjarnar bæklunarskurðlæknir og Valur Þór Marteinsson þvagfæraskurðlæknir stofnuðu Læknastofur Akureyrar á árinu 2001 og voru með aðstöðu við Glerárgötu.  Störfuðu þeir þar tveir næstu árin, „en við sáum svo tækifæri á að auka starfsemina og bæta við árið 2006 og þá var ráðist í að kaupa húsnæði við Hofsbót 4 og innrétta þar nokkrar læknastofur.  Við vorum þarna 5 þegar mest var og fyrsti starfsmaðurinn var ráðinn, í hálft starf til að byrja með til að sinna móttöku, símavörslu og fleiru," segir  Guðni.  Hann ásamt Helgu Magnúsdóttur svæfingalækni og Erlingi Huga Kristvinssyni háls-nef- og eyrnalækni fræddu Vikudag um starfsemi Læknastofa Akureyrar en þar starfa þau öll.  Allir læknarnir sem starfa þar hafa reynslu af rekstri eigin læknastofa.  Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi innan læknisfræðilegrar sem og annarrar heilsutengdrar starfsemi og að veita öllum þeim sem þangað leita gæðaþjónustu.

Síðla árs 2006 var umfang starfseminnar orðið það mikið að húsnæðið við Hofsbót nægði ekki.  „Það var alveg passlegt þegar við byrjuðum, en það leið ekki að löngu þar til við vorum búin að sprengja allt utan af okkur," segir Guðni.  Ráðist var í að leigja húsnæði á 6. hæð í Krónunni í miðbæ Akureyrar og þangað var flutt í ársbyrjun 2008.  „Við fórum úr 170 fermetrum í 450 fermetra og okkur þótt þetta mjög rúmgott, en nú erum við nánast búin að fullnýta hvern blett," segir hann.  Alls starfa 7 manns hjá Læknastofum Akureyrar í fjórum stöðugildum auk sérfræðinganna.

Starfsemin er tvískipt, annars vegar móttaka sjúklinga og svo skurðstofuhlutinn.  Á liðnu ári voru gerðar yfir 1200 aðgerðir á læknastofunum, þar af um 800 í svæfingu.  Algengustu aðgerðirnar eru háls-nef- og eyrna aðgerðir, lýtaaðgerðir, þvagfæraskurðaðgerðir, bæklunarskurðaðgerðir og almennar skurðaðgerðir.  Allar skurðaðgerðir sem gerðar eru á Læknastofum Akureyrar miða að því að sjúklingurinn fari heim samdægurs. Þá má nefna að á árinu 2008 komu um 9500 sjúklingar í móttöku til sérfræðilækna eða annarra sérfræðinga hjá Læknastofum Akureyrar. 

Djúpvöðvameðferð meðal nýjunga

Meðal nýjunga í starfseminni má nefna að tveir sjúkraþjálfarar starfa þar og bjóða upp á svonefna djúpvöðvameðferð fyrir konur, einkum í sambandi við þvagleka.  Djúpvöðvar liggja eins og nafnið bendir til djúpt við liðina og eiga að vita þeim stuðning við hreyfingu.  Við ýmsa áverka og álag getur margt farið úr skorðum, djúpvöðvarnir geta t.d. orðið vanvirkir eða virkjast seinna en ætlast er til, þannig að aðrir vöðvar taka við vinnunni og geta þá orðið of stífir eða spenntir.  Þar sem djúpvöðvarnir liggja djúpt við liði getur verið erfiðara en ella að kenna fólki rétta tækni við að ná fram réttri spennu.  Sjúkraþjálfararnir gefa fólki kost á að sjá sónarmynd af djúpu vöðvunum og þannig er  auðveldara að greina og leiðbeina fólki með rétta spennu og þar með rétta þjálfun.  Læknastofur Akureyrar er eini staðurinn hér á landi sem býður þjónustu af þessu tagi.

Okkur hefur verið vel tekið

Sem áður segir leitar fjöldi fólks til sérfræðinga á Læknastofum Akureyrar en þar er vilji til að bæta og auka þjónustuna frá því sem nú er og nefna að á stofuna vanti kvensjúkdómalækni og þá væri einnig góð viðbót að fá augnlækni til starfa sem og lyflækni.  „Við erum að reyna að fá sérfræðinga á þessum sviðum til liðs við okkur og ég á von að að það takist," segir Guðni.  Þau miklu umsvif sem skapast hafa á læknastofunum segir hann til marks um að þörf fyrir þjónustuna hafi verið fyrir hendi.  „Við leggjum mikinn metnað í okkar starfsemi og við uppbygginguna var farið eftir öllum stöngustu kröfum sem gerðar eru.  Margir halda að það sé dýrara að koma hingað til okkar en raunin er sú að svo er ekki.  Við teljum að okkar starfsemi sé ágætis viðbót við þá þjónustu sem í boði er á Sjúkrahúsi Akureyrar og raunar má segja að á sumum sviðum léttum við mjög álagi af sjúkrahúsinu.  Okkar starfsemi eykur framboðið og val fólks verður meira en áður var.  Okkur hefur verið mjög vel tekið og margir hafa orð á því að hér sé ekki eins stofnanalegt og á sjúkrahúsum."

Læknastofur Akureyrar styðja við myndlistarstarfsemi í bænum, en í húsnæði þeirra er rekið gallerí LAK þar sem jafnan eru myndlistarsýningar.  Þar sýnir Nói nú verk sín. Læknastofur Akureyrar hafa heimasíðuna: http://laeknastofurakureyrar.is/

Nýjast