Varamaðurinn Howell tryggði KA mikilvægan sigur á HK

KA vann gríðarlega mikilvægan sigur á HK er liðin áttust við í sannkölluðum fallbaráttuslag á Akureyrarvelli í kvöld í 1. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Lokatölur leiksins urðu 2-1 KA í vil, þar sem varamaðurinn Daniel Jason Howell tryggði sigur heimamanna með góðu marki í blálokin. Eyþór Helgi Birgisson kom HK yfir strax eftir fjórar mínútur en Davíð Rúnar Bjarnason jafnaði fyrir KA 51. mínútu.  

Það blés ekki byrlega fyrir KA í hálfleik, því eftir arfaslakan fyrri hálfleik var liðið undir 0-1. Dæmið snérist við í síðari hálfleik og KA landaði mikilvægum sigri.  Varnarjaxlinn Elmar Dan Sigþórsson, sem mættur er til leiks á ný með KA, var að vonum sáttur með úrslitin en ekki með leikinn í heild sinni. "Þetta var virkilega erfið fæðing og ég man ekki eftir jafn lélegum fyrri hálfleik. Hann var skelfilegur og það gekk ekkert upp hjá okkur. Þetta var líka svona á móti Leikni, við vöknuðum aldrei í þeim leik og náðum ekki upp þeirri baráttu sem þarf í þessum botnslag. Í kvöld kom gjörbreytt lið inn á í síðari hálfleik og maður fann það líka að viljinn var til staðar og menn tóku miklu meiri þátt í leiknum," sagði Elmar Dan.

Með sigrinum náði KA að slíta sig vel frá HK sem situr áfram í neðsta sæti deildarinnar með aðeins 5 stig en KA er með 14 stig. Leiknir er með 10 stig í næst neðsta sæti en á leik til góða gegn Þrótti annað kvöld.  

Nýjast