Vantrauststillaga á stjórn LA felld á aðalfundi

Fjármunir úr minningasjóði voru notaðar í rekstur félagsins án heimildar.
Fjármunir úr minningasjóði voru notaðar í rekstur félagsins án heimildar.

Á aðalfundi Leikfélags Akureyrar sem var haldinn í Samkomuhúsinu seinni partinn í gær, bar Hjörleifur Hallgríms upp vantrauststillögu á stjórn LA en sú tillaga var felld. Þá kom fram á fundinum að fjármunir úr Minningarsjóði Jóns Kristinssonar, um 7 milljónir króna, höfðu verið notaðir í rekstur félagsins án heimildar og vitundar stjórnar. Ekki tókst að ljúka fundinum, þar sem sýning var um kvöldið en Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður stjórnar LA, segir að boðað verði til framhaldsaðalfundar í byrjun næsta árs.

“Þá verður vonandi hægt að kynna niðurstöður þeirrar vinnu sem framtíðarnefnd bæjarins og LA vinnur að, en það er margt sem þarf að ræða.” Sigrún Björk segir að leikfélagið standi á ákveðnum tímamótum og að fjárhagsstaðan sé erfið.  “Við þurfum að átta okkur á aðstæðum og ákveða hvernig við ætlum að vinna okkur úr úr þessu. Tap félagsins nam 73 milljónum króna en það þarf þó að horfa á tvö síðustu rekstrarár í samhengi því árið á undan var tapið 8 milljónir króna. Í þessum tölum vegur þyngst tap félagsins vegna uppsetningarinnar á Rocky Horror í Hofi. Kostnaður við þá sýningu fór úr böndunum en eins og komið hefur fram högnuðust allir á sýningunni nema leikfélagið. Sýningin skilaði miklu í viðskiptum til bæjarins í formi verslunar og þjónustu,  en bætti um of á skuldir leikfélagsins.”

Heildartekjur LA á síðasta rekstrarári námu rúmlega 180 milljónum króna, þar af komu um 120 milljónir króna sem framlag frá ríkinu og Akureyrarbæ og tæpar 70 milljónir króna sem sjálfsaflafé. Ný stjórn var kosin á aðalfundinum í gær og ný í stjórn eru Helgi Gestsson lektor við HA, Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Páll Jónsson hjá Hótel Kea. Sigrún Björk og Saga Jónsdóttir voru kosnar í stjórn til tveggja ára á aðalfundi fyrir um ári. Hjörleifur Hallgríms lagði fram lista með mótframboði, sem hlaut ekki kosningu.

Um 50 manns sóttu aðalfundinn en þar af höfðu aðeins um 20 manns atkvæðisrétt. “Vandamálið er að það eru mjög stíf skilyrði og girðingar varðandi félagsaðild í LA og töluvert flókið að gerast félagi með kosningarrétt á aðalfundi. Það er eitt af því sem hlýtur að koma til endurskoðunar í þeirri vinnu sem nú stendur yfir.” segir Sigrún Björk.

Varðandi Minningarsjóð Jóns Kristinssonar segir hún að tekið hafi verið að láni úr sjóðnum þessar 7 milljónir króna til reksturs félagsins á árinu 2010 og í byrjun þessa árs. “Leikfélagið mun greiða þessa peninga til baka í sjóðinn. Það eru ákveðnar kvaðir varðandi sjóðinn og þarf samþykki stjórnar til veita fé úr honum. Það var ekki virt og stjórnin vissi ekki að þessir fjármunir hefðu verið notaðir til rekstrar,” segir Sigrún Björk. Hún segir að stjórnin eigi mikið verk fyrir höndum, sem og allir þeir sem að leikfélaginu koma. “Mér finnst niðurstaða aðalfundarins vera á þeim nótum að hér þurfi að vera starfandi atvinnuleikhús. Fólk gerir sér grein fyrir því að starfsemi LA skiptir miklu máli víða í samfélaginu og leikhúsið hefur mikið aðdráttarafl.

 

 

 

 

Nýjast