Vantar á annan tug hjúkrunarfræðinga á SAk

Illa gengur að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa á SAk.
Illa gengur að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa á SAk.

Erfiðlega hefur gengið að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa á Sjúkrahúsið á Akureyri undanfarið. Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á SAk, segir að töluvert vanti af hjúkrunarfræðingum og það sé mat stjórnenda í hjúkrun að það vanti allt að 10 stöðugildi. Sökum þessa hefur reynst erfitt að manna afleysingastöður síðustu tvö ár vegna sumarleyfa, veikinda eða annarra fjarveru hjúkrunarfræðinga.

„Það sem við sjáum núna er ólíkt því sem við höfum vanist en hingað til hafa flest stöðugildi verið uppfyllt,“ segir Hildigunnur. „Á þessu ári finnum við greinilega fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum þar sem sífellt færri sækja um auglýstar stöður og illa gengur að ráða inn í fastar stöður.“

Alls eru um 185 hjúkrunarfræðingar starfandi á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 135 stöðugildum. Meðalstarfshlutfall hjúkrunarfræðinga er 70% og því
vantar á annan tug hjúkrunarfræðinga.

„Verulegt áhyggjefni“

Framkvæmdastjórn SAk sendi nýlega frá sér ályktun þar sem þungum áhyggjum vegna stöðu hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum var lýst yfir. Mikilvægt sé að laða útskrifaða hjúkrunarfræðinga til starfa og hraða nýliðun hjúkrunarfræðinga til að bregðast við núverandi og fyrirsjáanlegum skorti á þeim.

Verði ekki gripið til viðhlítandi ráðstafana gæti sá skortur haft óæskileg áhrif á gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga. Hildigunnur segir að launamál og starfsumhverfi spili stóran þátt í því að færri hjúkrunarfræðingar sæki um auglýstar stöður hjá SAk.

„Launamál eru án efa stærsti þátturinn í þessu en til langs tíma eru það hlutir eins og vaktaálag og starfsumhverfi sem hefur mikið að segja. Þetta er verulegt áhyggjuefni,“ segir Hildigunnur.


Athugasemdir

Nýjast