Vandræðagangurinn vegna átaka á stjórnarheimilinu

„Vandræðagangurinn varðandi þetta mál er fyrst og fremst til kominn vegna átaka á stjórnarheimilinu, af einhverjum ástæðum eru menn þar á bæ ekki samstíga og málið vefst fyrir fólki,“ segir Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins um um fjármögnun Vaðlaheiðaganga. “Allir þingmenn kjördæmisins nema Kristján Möller að ég held, greiddu atkvæði með heimild til fjármálaráðherra um eins milljarða lánveitingu til Vaðlaheiðaganga hf á árinu 2011 til þess að hefja verkefnið, en Kristján var fjarverandi. Enginn fyrirvari var í þeirri lagaheimild sem þingið samþykkti,“ segir Kristján Þór.

Við afgreiðslu fjáraukalaganna í  liðinni viku, þar sem fjármálaráðherra var veitt heimild til að gera samning um fjármögnun Vaðlaheiðaganga, sagði ráðherra að enginn bindandi og endanlegur samningur yrði gerður fyrr en fjárlaganefnd hefði verið upplýst um allar forsendur. Þá hefði fjármálaráðuneytið óskað eftir því að óháður aðili gerði sjálfstætt mat á reikningslegum forsendum framkvæmdarinnar. Áður hafði umhverfis- og samgöngunefnd  óskað eftir því að Ríkisendurskoðun endurreiknaði forsendur verkefnisins en stofnunin beðist undan því.

Kristján Þór bendir á að Eyfirðingar sem og Þingeyingar hafi barist fyrir því allt frá árinu 1998 að ráðist yrði í gerð Vaðlaheiðaganga og að um mikið hagsmunamál væri að ræða fyrir héraðið.  Fyrsta samþykktin í þessa veru kom fram hjá Atvinnumálanefnd Akureyrar sem þá var og hét fyrir 13 árum  og var hún gerð í samráði við aðila vinnumarkaðarins og fleiri.  Bæjarstjórn Akureyrar tók málið svo upp á sína arma, „þannig að þetta hefur verið lengi í umræðunni og á sér langa forsögu.  Að því hafa komið fjölmargir aðilar, einstaklingar, félög, sveitarfélög og fyrirtæki sem lagt hafa mikið á sig til að þoka málinu áleiðis. Ég ætla rétt að vona að eftir 13 ára baráttu heimamanna fari gerð ganganna loks að komast á framkvæmdastig,“ segir Kristján Þór.

Nýjast