Vandi Grímseyjar kallar á tafarlausar aðgerðir
Bæjarráð Akureyrarbæjar skorar á innanríkisráðherra, að hefja strax aðgerðir til að bæta úr samgöngumálum Grímseyinga eins og lofað hefur verið og samþykktar af ríkisstjórninni í nóvember í fyrra. RÚV sagði fyrst frá málinu
Bæjarráð hefur fært til bókar að ekkert bóli á slíkum aðgerðum, en nú þegar hefur ýmislegt verið gert samkvæmt þeim tillögum sem ríkisstjórnin samþykkti. Grímsey er komin inn í verkefnið „Brothættar byggðir“ hjá Byggðastofnun og hefur þess vegna fengið úthlutað byggðakvóta og fjarskiptasamband hefur verið bætt.
Tillögur sem starfshópur um vanda Grímseyjar hefur unnið, fela í sér að með sérstakri fjárveitingu verði ferðum Grímseyjarferjunnar fjölgað og að bætt yrði við flugferðum. Þessar tillögur hafa þegar verð samþykktar í ríkisstjórn.
Vegagerðin mun á næstu vikum auglýsa útboð með breyttum forsendum, en ekki hafa fengist upplýsingar um hvaða breyttu forsendur það eru.