Valsmenn á toppinn eftir sigur á Þórsvelli

Valsmenn tylltu sér á topp Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld með 3:0 sigri gegn Þór á Þórsvelli í níundu umferð deildarinnar. Leikurinn var nokkuð jafn en Valsmenn sköpuðu sér mun fleiri færi og var sigurinn sanngjarn. Þeir Jón Vilhelm Ákason, Haukur Páll Sigurðsson og Rúnar Már Sigurjónsson skoruðu mörk Vals í leiknum. Þriðja mark Vals var afar athyglisvert. Línuvörðurinn var búinn að veifa rangstöðu en dómarinn lét leikinn halda áfram og Rúnar Már kláraði leikinn fyrir gestina. Þar með eru Valsarar komnir með 21 stig í efasta sæti, stigi meira en KR sem á leik til góða. Þórsarar eru áfram í níunda sæti með átta stig.

 

Þórsarar byrjuðu leikinn vel í kvöld og voru meira með boltann fyrstu mínútunar. Fyrsta færi leiksins kom strax á fjórðu mínútu og það var heimamanna. Gunnar Már Guðmundsson átti þá skalla í slána eftir langt innkast frá Gísla Páli Helgasyni.Valsmenn sóttu hins vegar á og það voru þeir sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Jón Vilhelm Ákason kom þá boltanum í netið á 23. mínútu af stuttu færi eftir sendingu frá Hauki Páli Sigurðssyni. Staðan 0:1.

Valsmenn sóttu meira eftir markið og fengu nokkur ágætis færi til þess að auka við forystuna en höfðu ekki heppnina með sér. Þórsurum gekk illa að spila sig í gegnum vörn Valsmanna og það reyndi lítið á Harald Björnsson í marki Vals í fyrri hálfleik. Hann þurfti þó að taka á honum stóra sínum undir lok hálfleiksins er hann varði fína aukaspyrnu frá Atla Sigurjónssyni rétt utan teigs.

Staðan 0:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn fór fjörlega af stað og bæði lið fengu dauðafæri á fyrstu fimm mínútunum. Fyrst fékk Arnar Sveinn Geirsson dauðafæri fyrir Valsmenn en hitti ekki boltann nánast einn á móti markinu og vildi meina að brotið hafi verið á sér. Í næstu sókn átti Sveinn Elías Jónsson skot hátt yfir mark Vals úr fínu færi.Valsmenn sóttu meira og fór svo að þeir komust í 2:0 á 59. mínútu er Haukar Páll Sigurðsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni. Staðan góð fyrir Hlíðarendapilta en Þórsarar í tómu basli. Hörður Sveinsson, nýkominn inn á sem varamaður, var svo nálægt því að klára leikinn endanlega fyrir Valsmenn er hann skallaði hárfínt framhjá markinu er um tuttugu mínútur lifðu leiks.

Þriðja markið kom hins vegar fimm mínútum síðar og það gerði Rúnar Már Sigurjónsson. Línuvörðurinn dæmdi rangstöðu en dómarinn dæmdi markið engu að síður gott og gilt og allt varð vitlaust á Þórsvelli. Staðan 0:3 þegar 12 mínútur voru eftir og úrslitin gott sem ráðin.Lítið markvert gerðist eftir þetta og leikurinn fjaraði út með öruggum 3:0 sigri Valsmanna.

Það var svo allt á suðupunkti í leikslok á Þórsvelli þar sem Jón Vilhelm Ákason fékk flösku í höfuðið svo flossblæddi úr honum og líklegt að eftirmálar verða af þessu atviki. 

Nýjast